Það versta sem getur komið fyrir mannskepnuna er að upplifa að sig fyrir utan heildina. Ungir einangraðir karlmenn eru líklegri til að fremja voðaverk en aðrir.

Þetta segir Elín Ebba Ásmundsdóttir, varaformaður Geðhjálpar, sem ræðir við Lindu Blöndal um einmanaleika og árásargirni í Fréttvaktinni á Hringbraut í kvöld.

„Þetta eru oft ungir karlmenn. Þú sérð aldrei konur gera þetta. Þetta eru ungir karlmenn sem kannski eiga sögu um að hafa flosnað upp úr skóla, hafa lent í einelti, eru einangraðir,“ segir Elín Ebba.

Hún bendir á að rannsóknir hafi sýnt fram á karlmenn eigi færri trúnaðarvini í dag en áður. „Fyrir tíu eða tuttugu árum áttu menn tvo til fjóra vini og einn eða tvo trúnaðarvini. Í dag eiga margir enga trúnaðarvini og þá helst í röðum ungra karlmanna.“

Tvær banvænar skotárásir hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum síðastliðna sólarhringa, annars vegar í Fields verslunarmiðstöðinni í Kaupmannahöfn og hins vegar í þjóð­há­tíðar­dags­skrúð­göngu í út­hverfi Chi­cago í Banda­ríkjunum. Vitað er að gerandinn í skotárásinni í Kaupmannahöfn hafi átt við andleg veikindi að stríða árum saman og hafi reynt að óska eftir aðstoð fyrir árásina.

Danir hafa gagnrýnt geðheilbrigðiskerfið þarlendis fyrir að hafa ekki gripið inn í fyrr.

Elín Ebba segir áberandi að fólk greini sig sjálf í gegnum netið. Erfitt sé að upplifa sig sem venjulegan þegar maður er stöðugt að finna svör við ýmsum einkennum. Nauðsynlegt sé að endurskoða núgildandi greiningarkerfi.

„Við getum öll orðið hættuleg í ákveðnum aðstæðum; ef við upplifum að við séum ekki hluti af heild, ef við upplifum mismunum eða einhvern vítahring sem við komumst ekki út úr.“

Hér má sjá tvær klippur úr viðtalinu við Elínu Ebbu en þáttinn má sjá í heild sinni á vef Hringbrautar klukkan 18:30.