Lögreglan í Christchurch telur nær fullvíst að hryðjuverkamaðurinn Brenton Tarrant hafi undirbúið þriðju árásina á föstudaginn síðasta. Hann var hins  vegar stöðvaður af lögreglu og handtekinn áður en hann náði að ráðast á þriðja skotmarkið.

Á blaðamannafundi í morgun ræddi Mike Bush, lögreglustjóri í Christchurch, árásina liðinn föstudag við fréttamenn. Þar sagði hann meðal annars að innan sex mínútna frá því viðbragðsaðilar höfðu vígbúist hafi Tarrant verið í haldi lögreglu. 21 mínúta leið frá því lögreglu var gert viðvart um árásina og þar til byssumaðurinn var handtekinn.

Sjá einnig: Vill að heims­byggðin berjist gegn ras­isma

„Við teljum nær fullvíst að við stöðvuðum hann á leiðinni á annað skotmark, svo mannslífum var bjargað,“ sagði Bush við fréttamenn í morgun. „Við erum viss um hvert hann var að fara og við stöðvuðum hann á miðri leið þangað.“

Lögreglustjórinn vildi þó ekki upplýsa hvert þriðja skotmark árásarmannsins var, en hann myrti fimmtíu manns í Linwood og Al Noor moskunum í Christchurch.

Á fundinum sagði Bush það vera í forgangi hjá lögreglu að bera kennsl á lík fórnarlambanna til þess að hægt verði að koma þeim til ástvina sinna sem fyrst. Fjölskyldur þeirra sem féllu í árásunum er farið að lengja eftir því að grefta ástvini sína. 

Sjá einnig: Enginn til­kynnti beina út­sendingu af hryðju­verkunum