Staðfest hefur verið að fimm létu lífið þegar maður á fertugsaldri, vopnaður byssu, réðst inn á ritstjórnarskrifstofur Capital Gazette í Maryland í Bandaríkjunum í gær og hóf þar skothríð. Samkvæmt vef NY Times eru tveir særðir eftir árásina. 

Hinir látnu voru allir starfsmenn fyrirtækisins. 

Árásarmaðurinn hefur verið nafngreindur sem hinn 38 ára Jarrod Ramos, sem er í haldi lögreglu. Samkvæmt fjölmiðlum vestanhafs hafði Ramos lengi átt í illdeilum við fjölmiðlafyrirtækið, sem gefur út nokkur dagblöð á svæðinu. Þá á Ramos meðal annars að hafa kært nokkra blaðamenn og komið af stað herferð á samfélagsmiðlum gegn þeim. 

Í júlí árið 2012 höfðaði hann einnig meiðyrðamál gegn fyrirtækinu, ritstjóra þess og fyrrverandi blaðamanns þar sem hann sagði blaðið hafa skemmt mannorð sitt. Hið meinta mannorðsmorð sneri að umfjöllun eins tímaritsins um mál sem höfðað var gegn Ramos árið 2011, þar sem hann var sakfelldur fyrir áreiti.

„Jarrod Ramos á sér langa sögu af reiði gegn The Capital tímaritinu,“ er haft eftir Tom Marquard, fyrrverandi ritstjóra og útgefanda hjá tímaritinu The Capital. 

„Ég sagði einu sinni við lögmann minn að þetta væri maðurinn sem myndi koma og skjóta okkur. Ég var áhyggjufullur fyrir mína hönd og fyrir hönd starfsfólks míns að hann myndi grípa til annarra aðgerða en að lögsækja okkur.“

„Þetta var skipulögð árás á The Capital Gazette,“ sagði William Krampf, lögreglustjóra Anne Arundel County lögreglustöðvarinnar á blaðamannafundi. „Þessi maður var tilbúinn að skjóta fólk. Markmið hans var að meiða.“

Blaðamaðurinn Phil Davis tjáði sig um árásina á Twitter meðan hún stóð yfir. Þar skrifaði hann meðal annars: „Það er ekkert ógnvænlegra, þegar þú felur þig undir skrifborðinu þínu, en að heyra fólk verða fyrir skotum og heyra svo byssumanninn hlaða byssuna á ný.“ 

 Í viðtali í gær sagði Davis að Ramos hefði gengið hljóðlega um fréttastofuna og meðal annars stoppað til þess að hlaða vopn sitt. „Hann hafði ekki nóg af byssukúlum fyrir okkur öll,“ er haft eftir Davis. „Það var hræðilegt að vita að hann hafði ekki nægilega margar byssukúlur til þess að myrða alla á skrifstofunni og hann þyrfti að sækja meira.“ Þegar lögregla kom á vettvang settu starfsmenn hendur upp í loft og kölluðu „Við erum ekki hann.“ 

Ramos hafði falið sig undir skrifborði þegar lögregla mætti á svæðið. Hann veitti ekki mótspyrnu við handtöku. Samkvæmt þarlendum fjölmiðlum hefur hann ekki verið samvinnuþýður við yfirvöld og neitaði að gefa upp nafn sitt. Borin voru kennsl á hann með svokölluðum andlitsskanna.

Forseti Bandaríkjanna tjáði sig um árásina á Twitter í gær. Þar kvaðst hann hugsa og biðja fyrir fórnarlömbum og fjölskyldum þeirra. 

Mikla athygli hefur vakið, að dagblaðið The Capital kom út í morgun, eins og venjulega, þrátt fyrir árásina. The Capital Gazette birti mynd af forsíðu blaðsins á Twitter-reikningi sínum í morgun, en þar má sjá fyrirsögnina: „5 skotnir til bana hjá The Capital“ og myndum af hinum látnu er raðað fyrir ofan hana ásamt nöfnum þeirra: Wendi Winters, Rebecca Smith, John McNamara, Gerald Fischman og Rob Hiaasen. Líkt og fyrr segir störfuðu hin látnu öll hjá blaðinu.

Fréttin hefur verið uppfærð.