Bæjarstjórinn í Utrecht greindi frá því á blaðamannafundi að maðurinn sem grunaður er um að hafa myrt þrjá í dag í skotárás, hinn 37 ára gamli Gökman Tanis hafi verið handtekinn. Ekkert er enn vitað um ástæðu þess að Tanis hóf skotárás um borð í lest í morgun. Ekki er búið að útiloka að um hryðjuverkaárás hafi verið að ræða.

Bæjarstjórinn byrjaði blaðamannafundinn á því að tjá fjölskyldum fórnarlambanna samúð sína og staðfesti síðan það sem áður hefur verið greint frá að þrír hafi látist í árásinni og að fimm séu særð, þar af eru þrjú í lífshættu.

Sjá einnig: Þrír látnir í Utrecht: Meintur gerandi myndbirtur

„Dagurinn í dag er svartur dagur fyrir borgina okkar, fyrir Utrecht. Ráðist var á grunlausa og saklausa borgarar í lestinni á leið til vinnu eða skóla,“ sagði Van Zanen á blaðamannafundi sem haldinn var í dag rétt eftir klukkan 17 að íslenskum tíma.

Talsmaður lögreglunnar sagði á blaðamannafundinum að framkvæmdar hefðu verið nokkrar húsleitir í dag sem hafi leitt til einnar handtöku. Ekki var greint frá því hvernig sá sem handtekinn var tengdist árásarmanninum, Gökman Tanis.

Áætlað er að forsætisráðherra Hollands haldi blaðamannafund vegna málsins klukkan 18 að íslenskum tíma. 

Greint er frá á hollenska miðlinum NOS.