Bresk yfir­völd hafa nú nafn­greint manninn sem grunaður er um að hafa myrt þing­manninn David Amess síðasta föstu­dag á fundi sem hann hélt með kjós­endum.

Maðurinn sem er grunaður heitir Ali Harbi Ali og er 24 ára. Hann er í gæslu­varð­haldi og er haldið vegna gruns um hryðju­verk. Sam­kvæmt frétt breska ríkis­út­varpsins hefur lög­regla þar til á föstu­dag til að yfir­heyra hann.

Þar kemur einnig fram að Ali hafi verið vísað á nám­skeið til for­varna gegn hryðju­verkum fyrir nokkrum árum en að hann hafi aldrei verið form­lega til at­hugunar hjá bresku leyni­lög­reglunni, MI5. Hann er sagður hafa stoppað stutt á nám­skeiðinu en til­gangur þess er að stöðva fólk í að snúast til öfga.

Kennarar, al­menningur og heil­brigðis­starfs­fólk í Bret­landi getur vísað lög­reglu og fé­lags­þjónustu á fólk sem það telur eiga heima í prógramminu. Það er ekki hægt að neyða fólk til að taka þátt.

Ali er breskur ríkis­borgari en er sagður af só­mölskum upp­runa og á föstu­dag, þegar hann var hand­tekinn, greindi lög­reglan frá mögu­legum tengslum við íslamska öfga­trú. Ali er talinn hafa verið einn að verki.

Fjölmargir komu saman í gær til að minnast Amess. Samkoman var nærri vettvangi morðsins.
Fréttablaðið/EPA

Amess var stunginn marg­sinnis í Essex síðasta föstu­dag. Hann hafði verið þing­maður frá árinu 1983 og var þegar á­rásin átti sér stað að halda reglu­legan fund sinn með kjós­endum. Hnífurinn sem var notaður var fundinn á vett­vangi á­rásarinnar.