Árásarmaður sem réðist á mann með eggvopni í Vallahverfinu í Hafnarfirði á föstudag er enn ófundinn. Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Hafnarfirði, staðfestir þetta í samtali við Fréttablaðið.

Karlmaður sem varð fyrir stunguárásinni var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar en hann er ekki í lífshættu.

Lögreglan fékk tilkynningu um óeðlilega hegðun í fjölbýlishúsi klukkan 01:31 aðfaranótt föstudags en þar fannst maðurinn sem bar stunguáverka. Hafði hann flúið undan árásaraðila inn í húsið.

Helgi Gunnarsson lögreglufulltrúi rannsakar málið en hann segir að ekkert miða í því. Aðspurður hvort brotaþoli hafi getað lýst árásarmanninum segir Helgi:

„Annað hvort þekkti hann ekki árásarmanninn eða vill ekkert gefa upp um hann.“

Fréttablaðið greindi frá því í september þegar maður var handtekinn við íbúðarhús í sama hverfi eftir að hann ógnaði pari með eggvopni við Skarðshlíðarskóla. Helgi segir málin ekki tengjast. „Þetta er tvö algjörlega aðskilin mál,“ segir lögreglufulltrúinn.