Á blaðamannafundi lögreglunnar í Osló sem haldinn var fyrr í dag sagði Børge Enoksen lögreglufulltrúi að árásarmaðurinn, Zaniar Matapour, neitaði að taka þátt í yfirheyrslu í bæði gær og í dag. Ástæðan er sú að hann vill að upptökur af yfirheyrslunni verði gerðar opinberar. Norska ríkisútvarpið NRK greinir frá þessu.
Zainar Matapour er sakaður um morð á tveimur einstaklingum, tilraun til manndráps og hryðjuverk. En hleypti af skotum fyrir framan hinsegin bar á aðfaranótt laugardags, með þeim afleiðingum að tveir karlmenn létust og um tuttugu manns slösuðust.
Lögreglan vill taka upp yfirheyrslurnar, bæði á hljóði og myndbandi, en Matapour hefur ekki fellst á það. Verjandi Matapour segir hann vera hræddan um það að lögreglan snúi úr orðum hans og því eigi að birta upptökurnar opinberlega.
„Umbjóðandinn minn hefur neitað að vera tekinn upp á hljóð- og myndefni, nema að það verði sent út opinberlega í heild sinni,“ segir verjandi Matapour, John Christian Elden.
Fyrr í dag var greint frá því að Matapour, sem er norskur ríkisborgari, hafi verið í samskiptum við þekktan róttækan íslamista sem býr í Osló. En sá maður hafði deilt á samfélagsmiðla færslu þar sem hann boðaði dráp á samkynhneigðum.