Á blaða­manna­fundi lög­reglunnar í Osló sem haldinn var fyrr í dag sagði Børge Enok­sen lög­reglu­full­trúi að á­rásar­maðurinn, Zaniar Matapour, neitaði að taka þátt í yfir­heyrslu í bæði gær og í dag. Á­stæðan er sú að hann vill að upp­tökur af yfir­heyrslunni verði gerðar opin­berar. Norska ríkis­út­varpið NRK greinir frá þessu.

Za­inar Matapour er sakaður um morð á tveimur ein­stak­lingum, til­raun til mann­dráps og hryðju­verk. En hleypti af skotum fyrir framan hin­segin bar á að­fara­nótt laugar­dags, með þeim af­leiðingum að tveir karl­menn létust og um tuttugu manns slösuðust.

Lög­reglan vill taka upp yfir­heyrslurnar, bæði á hljóði og mynd­bandi, en Matapour hefur ekki fellst á það. Verjandi Matapour segir hann vera hræddan um það að lög­reglan snúi úr orðum hans og því eigi að birta upp­tökurnar opin­ber­lega.

„Um­bjóðandinn minn hefur neitað að vera tekinn upp á hljóð- og mynd­efni, nema að það verði sent út opin­ber­lega í heild sinni,“ segir verjandi Matapour, John Christian Elden.

Fyrr í dag var greint frá því að Matapour, sem er norskur ríkis­borgari, hafi verið í sam­skiptum við þekktan rót­tækan íslam­ista sem býr í Osló. En sá maður hafði deilt á sam­fé­lags­miðla færslu þar sem hann boðaði dráp á sam­kyn­hneigðum.