Danskur karlmaður á þrítugsaldri sem grunaður er um að hafa orðið þremur að bana og sært fjóra með skotárás í verslunarmiðstöð Field's í Kaupmannahöfn í Danmörku er sagður hafa reynt að leita sér aðstoðar fyrir árásina.

DR greinir frá.

Samkvæmt heimildum DR á maðurinn að hafa reynt að óska eftir aðstoð við geðrænum vanda stuttu fyrir árásina í gær.

Leiddur fyrir dómara

Lögreglan í Kaupmannahöfn hefur ekki viljað tjá sig um málið og hefur vísað til yfirlýsinga á blaðamannafundinum sem fór fram í morgun.

Maðurinn var bláklæddur þegar hann var leiddur fyrir dómara um ellefu leytið að íslenskum tíma fyrir luktum dyrum.

Sem stendur fá fjölmiðlar ekki upplýsingar um hvort maðurinn hafi játað eða hafnað sök fyrir dómi. Hann er sakaður um að hafa myrt þrjá einstaklinga og gert tilraun til að myrða fjóra til viðbótar.

Geðræn vandamál

Enn er spurningum ósvarað um skotárásina í Field's-verslunarmiðstöðinni í Kaupmannahöfn í gær.

Vitað er að árásarmaðurinn var 22 ára og af dönskum uppruna.

Þá hefur verið greint frá því að hann hafi átt við geðræn vandamál að stríða en óvíst er hvað honum gekk til eða hvar hann fékk byssuna sem hann notaði til voðaverksins.

Lögreglan hefur útilokað að um hryðjuverk hafi verið að ræða og segist telja að árásarmaðurinn hafi skotið á fólk af handahófi.

Stuttu eftir að árásin hófst í gær var hafið að deila myndböndum með manni sem var sagður vera árásarmaðurinn á netinu.

Í myndböndunum sést hann munda byssur og beina þeim að höfði sér, auk þess sem hann sést stinga byssuhlaupinu upp í munninn.

Myndböndin hafa síðan verið fjarlægð en á fjölmiðlafundi í morgun staðfesti rannsóknarlögreglumaðurinn Søren Thomassen að árásarmaðurinn væri sá sem birtist í nokkrum þeirra.