Maðurinn sem réðst á fólk með boga og myrti fjórar konur og einn karl­mann í Kongs­berg í Noregi snerist til öfga­trúar og var marg­dæmdur fyrir ýmis brot, þar á meðal inn­brot og vímu­efna­brot. Í fyrra var hann dæmdur í sex mánaða nálgunar­bann gegn tveimur ná­komnum úr fjöl­skyldu hans eftir að hafa hótað þeim líf­láti. Sam­kvæmt nálgunar­banns­úr­skurði var talin hætta á að hann myndi brjóta gegn þeim.

Hin látnu eru á aldrinum 50 til 70 ára. Nöfn þeirra hafa ekki verið gefin upp en ættingjar þeirra hafa verið látnir vita. Tveir til við­bótar særðust í á­rásinni og er einn þeirra er lög­reglu­maður á frí­vakt.

Að sögn norsku lög­reglunnar var hann dæmdur fyrir inn­brot og kaup á hassi árið 2012 en í dómnum kom fram að hann átti sér sögu um svipuð af­brot. Maður er danskur og 37 ára að aldri og hafði búið í Kongs­berg um ein­hvern tíma.

Lög­regla segir hann hafa skipt um trú og snúist til öfga­fullrar íslams­trúar. Hann mun hafa verið undir eftir­liti hennar vegna ótta við öfga­skoðanir hans.

„Við höfum áður verið í sam­skiptum við hann vegna á­hyggja af rót­tækni hans,“ segir Ole Bredrup Sae­verud yfir­lög­reglu­þjónn hjá norsku lög­reglunni. Í fyrra bárust síðast á­bendingar um öfga­trú hans. Að­spurður um það hvort það hafi verið á­stæða á­rásarinnar vildi hann ekki segja.

„Við vitum það ekki en það er eðli­legt að spyrja þeirrar spurningar.“ Nú er rann­sakað hvort um hryðju­verka­á­rás hafi verið að ræða. Norska leyni­þjónustan hefur áður gefið það út að líkur væru á hryðju­verka­á­rás öfga­sinnaðra íslam­ista á þessu ári.

Eftir að lög­regla hand­samaði hann var hann fluttur á lög­reglu­stöð í D­rammen og var yfir­heyrður í þrjá tíma. Fredrik Neu­mann lög­maður hans segir manninn hafa sýnt lög­reglu sam­starfs­vilja en bráða­birgða­geð­mat á honum fer fram innan skamms að sögn Ann Irén Svane Mathias­sen sak­sóknara.

„Hann er sam­starfs­fús og hefur rætt til­efni á­rásarinnar,“ segir Neu­mann.

Lög­regla segir að fyrsta til­kynning um á­rásina hafi borist klukkan 18:12 að staðar­tíma þar sem vitni sögðu mann ganga um með boga og skjóta á fólk. Á­rásin hófst í mat­vöru­verslun Coop Extra.

„Það barst til­kynning um mann með boga og örvar skjótandi á fólk. Lög­regla er um­svifa­laust send á staðinn og á­kveðið var að hún bæri skot­voptn. Stuttu seinna voru fleiri lög­reglu­þjónar sendir á vett­vang,“ segir í til­kynningu frá lög­reglu. Fleiri höfðu sam­band við lög­reglu og sögðu fólk hafa orðið fyrir örvum mannsins.

Á­rásar­maðurinn skaut að lög­reglu­þjónum sem svöruðu með við­vörunar­skotum. Honum tókst að flýja og var ekki hand­tekinn fyrr en klukkan 18:47, 35 mínútum eftir að á­rásin hófst. Að sögn lög­reglu er lík­legast að maðurinn hafi myrt fólkið eftir að lög­regla mætti honum.

„Lög­regla hefur engar upp­lýsingar um að það sé hætta á lands­vísu,“ segir í til­kynningu frá henni en vegna á­rásarinnar hefur lög­reglan á­kveðið að lög­reglu­menn um allt land beri vopn.

Ekki hafa fleiri verið myrtir í árás í Noregi síðan hægri­öfga­maðurinn Andres Brevik myrti 77 manns í sprengju­áras í Osló og á eyjunni Útey í ná­grenni borgarinnar.

Á­rásar­maðurinn var hand­tekinn um 35 mínútum eftir að á­rásin hófst.
Fréttablaðið/EPA