Danskur karlmaður á þrítugsaldri sem er grunaður um að hafa orðið þremur að bana með skotárás í verslunarmiðstöð Field's í Kaupmannahöfn í Danmörku var leiddur fyrir dómara nú klukkan ellefu að íslenskum tíma.

Lögreglan í Kaupmannahöfn greinir frá þessu.

Saksóknari fór fram á að málið yrði tekið fyrir luktum dyrum.

Þrjú létust í gær eftir voðaverkin, 17 ára danskur piltur, 17 ára dönsk stúlka og 47 ára rússneskur ríkisborgari. Þá eru fjögur alvarlega særð, þar af einn í lífshættu.

Þrjátíu einstaklingar slösuðust í árásinni samkvæmt upplýsingum frá dönsku lögreglunni, margir með minniháttar áverka sem þeir hlutu þegar verið var að rýma verslunarmiðstöðina.