Lögreglan rannsakar nú skotárásina í Colorado og hvort að um hafi verið að ræða hatursglæp. Árásin átti sér stað rétt fyrir miðnætti á laugardag en fimm voru myrt og 25 særðust í árásinni sem átti sér stað á næturklúbbi fyrir LGBTQ-samfélagið.

Meðal þeirra látnu var Daniel Aston sem var 28 ára gamall trans maður sem starfaði á klúbbnum sem barþjónn. Honum er lýst sem lífsglöðum manni sem hafi verið hamingjusamur á þeim stað sem hann var í lífinu.

„Þetta er ótrúlegt. Hann hafði svo mikið meira líf að gefa okkur vinum sínum og sjálfum sér,“ er haft eftir Sabrinu Aston á Reuters.

Þar kemur fram að lögreglan muni halda blaðamannafund um árásina í dag en gerandinn hefur verið handtekinn og nafngreindur.

Anderson Lee Aldrich er 22 ára og notaði hálfsjálfvirkan riffil í skotárásinni. Fjöldi skotvopna fannst á vettvangi en fram kom í máli lögreglu að tveir gesta staðarins hafi yfirbugað Aldrich stuttu eftir að hann réðst inn á staðinn stuttu fyrir miðnætti. Hann er nú í haldi lögreglu og verður líklega ákærður fyrir manndráp. Hann hefur ekkert gefið upp í viðtölum við lögreglu um hvatann að árásinni.

Á vef AP kemur fram að Aldrich hafi verið handtekinn í fyrra eftir að hann hótaði móður sinni með heimagerðri sprengju og öðrum vopnum og hefur því verið fleygt fram í umræðu í Bandaríkjunum hvers vegna lögreglan tók ekki vopnin af honum við það tilefni. Aldrei var lögð fram kæra í því máli.

Greint er frá því í erlendum miðlum að annar þeirra hafi gripið af honum byssu og lamið hann með henni og hafi setið ofan á honum þegar lögregla kom á vettvang en borgarstjórinn og lögreglan hafa þakkað gestunum fyrir þeirra viðbrögð í fjölmiðlum.

Borgarstjóri Colorado Springs John Suthers sagði í viðtali við New York Times að árásin liti út fyrir að vera hatursglæpur. Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, sagði í yfirlýsingu að engin ástæða hefði enn verið fundin fyrir árásinni en minntist á það að hinsegin samfélagið hafi síðustu ár þurft að þola hræðilegar og ofbeldisfullar árásir.

Í gær hafði fjöldi gert leið sína að klúbbnum til að minnast þeirra látnu og lagt blóm, bangsa og kerti við skilti þar sem stóð „Ást fram yfir hatur“.

Alla síðustu viku var vitundarvakning um málefni trans fólks um allan heim og var í gær sérstakur minningardagur í þágu trans fólks sem hefur látist í kjölfar ofbeldis.