Maður vopnaður skotvopni skaut sex manns og síðan sjálfan sig í afmælisveislu í Colorado Springs í Bandaríkjunum í gær. Skotárásin átti sér stað í hjólhýsagarði þar sem fjölskyldur höfðu safnast saman í einum húsbílnum til að fagna.

Árásarmaðurinn, sem var kærasti konu sem lést í árásinni, keyrði að garðinum, gekk inn á heimilið, og hóf skotárásina á fólkið sem var mætt í veisluna, áður en hann tók eigið líf. Ekki er vitað hvað lá að baki árásinni.

Öll fórnarlömb mannsins voru fullorðin en mörg börn voru viðstödd þegar árásin átti sér stað. Búið er að koma öllum börnunum í hendur ættingja sinna að sögn lögreglu. Nöfn þeirra látnu hafa enn ekki verið birt og það sama á við um árásarmanninn.

Þegar lögreglu bar að garði voru sex einstaklingar þegar látnir og einn maður sem hafði hlotið alvarleg meiðsli. Maðurinn var færður á sjúkrahús þar sem hann lést af sárum sínum.