Hadi Matar, maðurinn sem réðst á rithöfundin Salman Rushdie í New York fylki hefur verið ákærður fyrir tilraun til morðs. Hann hefur verið færður í varðhald og hefur dómari neitað beiðni lögfræðinga hans um að honum verði sleppt gegn tryggingu.

Matar sagðist saklaus af öllum ásökunum þegar hann kom fyrir dómara.

Þetta kemur fram á fréttavef The Guardian en Matar réðst á Rushdie á fræðslufundi sem haldinn var í Chautauqua stofnuninni og stakk hann ítrekað. Ralp Henry Reese sem viðstaddur var með Rushdie á sviðinu slasaðist einnig á andliti í árásinni en áverkar hans eru taldir minniháttar.

Rushdie er enn á gjörgæslu og er talið að hann muni mögulega missa auga eftir þau sár sem hann hlaut í árásinni en hann hlaut einnig skaða á lifur og skárust í sundur taugar í handlegg hans. Honum er haldið í öndunarvél eins og stendur.

Vitni á staðnum hafa gagnrýnt öryggisaðstæður en tekið hefur verið fram að ekki hafi verið leitað í töskum viðstaddra eða málmleitar tæki notuð þegar komið var inn á viðburðinn.

Árásin talin í tengslum við „Fatwa“

Athugun á samfélagsmiðla reikningum Matar hefur leitt í ljós að hann aðhyllist sérstaklega íhaldssöm íslömsk gildi og hefur ítrekað lýst yfir stuðningi sínum við IRGC ( Islamic Revolutionary Guard Corps ) sem er sérstök deild innan Íranska hersins.

Vitað er að árið 1989 gaf Aya­tollah Ru­hollah Kho­meini, þá­verandi leið­togi Íran, út opin­bera til­skipun um að Rus­hdi­e skyldi myrtur á grund­velli skrifa sinna á bókinni „The Satanic Verses“ sem kom út árið 1988. Ekki hefur þó verið staðfest að Matar hafi verið að framfylgja skipun Khomeini en hann hefur ekki gefið það út sjálfur.