Þrír slösuðust þegar eld­flaugar lentu á banda­ríska sendi­ráðinu í Bagdad í gær. BBC greinir frá því að ein eld­flaugin hafi lent á mötu­neyti sendi­ráðsins og hin tvö skammt frá. Þetta er í fyrsta skipti í fjölda ára sem fólk slasast í árás sem þessari í Írak.

Enginn hefur lýst yfir á­byrgð á á­rásinni en banda­rísk stjórn­völd hafa sakað hryðju­verka­hóp sem nýtur stuðnings íranskra stjórn­valda, um á­rásina.

Banda­ríkja­menn hafa kallað eftir því að stjórn­völd í Írak upp­fylli skyldur sínar og komi í veg fyrir að á­rásir séu gerðar á er­lend sendi­ráð og stjórnar­erind­reka í landinu. Adel Abdul Mahdi, for­sætis­ráð­herra Írak hefur for­dæmt á­rásina og sagt slíkar á­rásir gætu valdið því að átök hefjist að nýju í landinu.

Tölu­verð spenna hefur verið í Írak síðan Banda­ríkja­menn réðu íranska hers­höfðingjann Qassem Suleimani af dögum, og hafa nokkrar á­rásir verið gerðar á er­lend sendi­ráð í Írak og her­stöðvar sem banda­ríska her­menn. Síðan Banda­ríkja­menn gerðu árás á bíla­lest Suleimani hefur and­staða við veru Banda­ríkja­manna í Írak aukist og hefur al­menningur mót­mælt síðustu dag og farið fram á að banda­rískum her­mönnum verði gert að yfir­gefa landið. Þá hefur íraska þingið sam­þykkt á­lyktun með sömu kröfu.