„Við verðum, held ég, í þessum sporum þangað til við fáum bóluefni,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, aðspurður um það hverju landsmenn megi búast við í þróun kórónaveirufaraldursins á næstu vikum. Hann segir ekki öruggt að bóluefni muni finnast en telur það líklegt. „Það eru um tíu framleiðendur í endastigsrannsóknum á bóluefni og við verðum bara að vona að niðurstöðurnar verði gott og öruggt bóluefni sem virki.“

Þá segir hann nánast öruggt að Íslendingar fái bóluefni, verði það að veruleika. „Það er eins öruggt og hægt er að segja, því að við erum í samstarfi við Evrópusambandið sem er búið að gera samninga við nokkuð marga framleiðendur svo ég held að það sé ekki hægt að vera tryggari,“ segir Þórólfur.

Spurður að því hvort líkur séu á að hægt sé að smitast oftar en einu sinni af COVID-19 segir Þórólfur það ólíklegt. „Það eru bara mjög fá dæmi um það og utan úr heimi eru engar stórar fréttir um það,“ segir hann. „Auðvitað getur það gerst að einhver af þessum 35-36 milljónum sem hafa smitast myndi ekki fullkomið ónæmissvar og geti þá smitast aftur, en það er algjör undantekning.“

Í gær voru 1.132 einstaklingar í einangrun með virkt kórónaveiru­smit hér á landi, en aldrei fyrr hafa verið jafnmörg virk smit hérlendis. Þann 5. apríl, þegar mest lét í fyrstu bylgju faraldursins, voru 1.096 einstaklingar í einangrun. Síðastliðna daga hafa á bilinu 80-90 greinst með smit hér á landi og segir Þórólfur að búast megi við svipuðum fjölda næstu daga. „Faraldurinn er öðruvísi núna og það er erfiðara að ná utan um hann,“ segir hann. „Ég hugsa að það muni taka einhvern tíma að ná þessu niður, jafnvel einhverjar vikur,“ bætir hann við.

Hann segir árangur þeirra aðgerða sem gripið var til í síðustu viku, þegar samkomutakmarkanir voru meðal annars miðaðar við 20 manns, ekki sjáanlegar strax. Mikilvægt sé að almenningur fylgi þeim tilmælum sem sett eru, það hvort slökun verði á tilmælum byggist mikið á hegðun almennings.

„Það skiptir höfuðmáli að almenningur sé með okkur í þessu og hafi úthald til þess að passa sig á þessum atriðum sem við erum alltaf að hamra á,“ segir Þórólfur og á þar við einstaklingsbundnar sóttvarnir, svo sem handþvott, sprittun, fjarlægðar- og samkomutakmarkanir. „Það skiptir engu máli hvað við segjum eða hvað við ákveðum að gera, ef almenningur tekur ekki þátt þá gerist ekki neitt,“ segir hann.

Hertar sóttvarnaaðgerðir tóku gildi hér á landi þann 8. október síðastliðinn og var þeim ætlað að standa í tvær vikur. Þann 19. október má því búast við nýjum tilmælum frá heilbrigðisráðherra er varða sóttvarnir. Í gær vann sóttvarnalæknir að gerð minnisblaðs til heilbrigðisráðherra þar sem hann setur fram tillögur sínar um þær sóttvarnaaðgerðir sem taka skuli gildi þann dag.

Í samtali við Fréttablaðið vildi Þórólfur ekki tjá sig um smáatriði minnisblaðsins en sagði ekki mikið ráðrúm til að slaka á aðgerðum. „Ef menn færu að gera það á meðan fjöldi smita á hverjum degi er svona hár og stöðugur myndum við líklega sjá aukningu í faraldrinum.“