Ís­lenska ríkið hefur að­eins brugðist við sex af á­tján tilmælum úr skýrslu Sam­taka ríkja gegn spillingu (GRECO) með fullnægjandi hætti. Þá hefur ríkið að­eins upp­fyllt tíu þeirra að hluta og tvær þeirra teljast ekki uppfylltar. Það kemur fram í nýjustu eftirfylgniskýrslu Samtaka ríkja gegn spillingu en skýrslan kom út í dag.

Síðast var slík eftirfylgniskýrsla gefin út fyrir tveimur árum en þá var með fullnægjandi hætti brugðist við fjórum af átján tilmælum samtakanna. Brugðist var við sjö tilmælum með ásættanlegum hætti að hluta til en sjö tilmælum hafði ekki verið brugðist við.

Það er því nokkur fram­för frá þeim tíma en í niður­stöðum sam­takanna kemur fram að sam­tökin telji árangur Ís­lands enn ó­full­nægjandi, eins og þau töldu í nóvember 2020 þegar síðasta eftirfylgniskýrsla kom út. Ís­lensk yfir­völd eru því beðin um að bregðast aftur við til­mælum sam­takanna og að þeim við­brögðum sé skilað í seinasta lagi í desember árið 2023.

Í skýrslunni kalla sam­tökin eftir því að meira sam­ræmi sé á siða­reglum við æðstu hand­hafa valds og á sam­skiptum þeirra við lobbýista. Þá kalla sam­tökin einnig eftir því að meira átak verði sett í það að á­varpa hags­muna­á­rekstra innan ýmissa stofnanna lög­gæslu­aðila.

Þær tvær til­lögur sem sam­tökin telja ekki upp­fyllt með neinum hætti snúa að siða­reglum Land­helgis­gæslunnar og lög­reglunnar en í til­lögunni er lagt til að þar séu hags­muna­á­rekstrar á­varpaðir með betri hætti og þátt­taka lög­gæslu­aðila í stjórn­málum. Í við­brögðum stjórn­valda kom fram að það ætti að gefa út nýjar siða­reglur fyrir lög­reglu og Land­helgis­gæsluna og fagna sam­tökin því að textar siða­reglanna hafi verið upp­færðir en vegna þess að siða­reglurnar hafa ekki verið sam­þykktar er litið svo á að að­gerðin hafi ekki verið inn­leidd.

Sú seinni snýr að til­lögu um að settar séu skýrar, sann­gjarnar og gagn­sæjar reglur, byggðar á hæfni, um það hve­nær samningar lög­gæslu­aðila eru ekki endur­nýjaðir og að það sé skýrt hvernig hægt sé að á­frýja slíkum á­kvörðunum.

Frum­skýrsla sam­takanna kom út árið 2018 en það var þeirra fimmta út­tekt á Ís­landi. Út­tektinni fylgdu 18 á­bendingar til ís­lenskra stjórn­valda um úr­bætur, þar af níu varðandi æðstu hand­hafa fram­kvæmdar­valds og níu á sviði lög­gæslu. Sam­tökunum bárust við­brögð ís­lenskra stjórn­valda þann 20. janúar 2020 auk við­bótar­skýrslu 31. ágúst 2020. Í nóvember 2020 kom svo fram í út­tekt sam­takanna að að­eins hafi verið brugðist með full­nægjandi hætti við fjórum af á­tján til­mælum sam­takanna.

Skýrslan kom út í dag og er hægt að kynna sér hana hér en í henni er farið vel yfir hverja einustu til­lögu úr frum­skýrslunni og þau við­brögð og að­gerðir sem hefur verið farið í hér á landi til að bregðast við. Meðal til­mæla í skýrslunni sem hefur verið brugðist við með á­sættan­legum hætti eru reglur um gjafir æðstu hand­hafa fram­kvæmdar­valdsins og að fjár­magn til lög­reglu sé tryggt þannig að lög­regla geti sinnt starfi sínu með skil­virkum hætti.