„Þetta er rosalega algengt á Íslandi og kannski ekkert óvanalegt að fólk hafi ekki verið að hugsa þetta lengra,“ segir Miriam Petra Ómarsdóttir Awad sérfræðingur á mennta- og menningarsviði Rannís um orð Sæunnar Magnúsdóttur formanns ÍBV í gær um aðra skessuna á þrettándagleði þeirra sem hefur ratað í fjölmiðla.
En að þeirra sögn var sú í „arabaklæðum“ og var merkt Heimi Hallgrímssyni Eyjamanni og knattspyrnuþjálfara.
Spurð hvort henni þættti það vanvirðing við þau sem koma frá Miðausturlöndum sagði Sæunn: „Ekki frekar en að hann hefði verið í ÍBV, Valsbúning eða íslenska landsliðsbúningnum eða einhverjum öðrum búning. Þetta var glens og átti að beinast að tröllaútgáfunni að Heimi. Ég held að það hafi enginn tekið hugsunina svona langt.“
Miriam vakti á Twitter athygli á þessum ummælum formannsins og taldi líklegt að enginn hafi tekið að svo langt því líklega sé enginn þar innanborðs sem hefur orðið fyrir fordómum sem litast af
Nei, enginn tók hugsunina svo langt af því að líklegast hefur enginn þarna innanborðs orðið fyrir fordómum sem litast af
— Miriam Petra - ميريام بترا (@mpawad) January 9, 2023
a) íslamófóbíu eða Miðausturlandaandúð
b) því að Miðausturlönd séu smættuð niður í einhverja einfalda skopstælingu þrátt fyrir fjölbreytileika sinn.
🙃 pic.twitter.com/hbcDjvWXiT
Gjörningurinn getur haft allt aðra merkingu
Í samtali við Fréttablaðið segir Miriam að við séum núna að upplifa meiri umræður um fordóma, sýnileika fólks af ólíkum uppruna og meiri fjölbreytileika í samfélaginu, en að það hafi ekki alltaf verið þannig.
„Það hafa ekkert margir verið að tala um þessa hluti fyrr en nú og þótt svo að þessi klæðnaður tröllsins sé katarskur í eðli sínu þá skiptir máli að líta til þess hvað þessi birtingarmynd ber með sér þegar hún er tekin úr samhengi. Þegar hann er settur í þann samfélagsstrúktúr þar sem fólk sem tilheyrir þessum minnihlutahópum verður fyrir fordómum og skopmyndirnar sem eru oft notaðar gegn þeim eru akkúrat svona þá hefur þessi gjörningur allt aðra merkingu,“ segir Miriam.
Hún segir svona skopmynd setta fram sem mikla einföldun á bæði miðausturlenskri menningu og múslimum almennt og hún sé oft notuð í neikvæðum tilgangi.
„Með henni er gefið í skyn að fólk frá þessum heimshluta, sem og múslimar, séu einsleitur hópur, sem þau eru ekki. Útlitið á þessu trölli er nákvæmlega sama stereótýpa og er gjarnan notuð til að ýta undir fordóma. Þetta veldur því að fólk getur leyft sér að vera með einfaldar og neikvæðar fullyrðingar um þennan menningarheim þar sem eina birtingarmyndin sem þau fá af honum er tengd við neikvæðar skopmyndir.“
Getur ýtt undir útilokun
Spurð hvort hún hefði viljað að viðbrögð ÍBV hefðu verið önnur segir hún viðbrögð þeirra mjög algeng í íslensku samfélagi, en ekki réttu viðbrögðin.
„Það væri hægt að gera betur og læra um afleiðingarnar sem svona staðalímyndir geta haft . Þetta getur ýtt enn frekar undir útilokun þeirra sem samfélagið tengir við þennan menningarheim. Ég hefði alveg viljað að þetta móment yrði líka nýtt til þess að líta í eigin barm og læra um birtingarmyndir fordóma á Íslandi, ekki bara út frá því að við séum að læra um kvenfyrirlitningu sem er auðvitað mikilvægt líka.“