Arababandalagið gagnrýnir Evrópusambandið harðlega fyrir að fordæma ekki árásir Ísraela á Palestínu.

„Þing Arababandalagsins fordæmir þögn Evrópusambandsins vegna blygðunarlausra brota á mannréttindum í hernumdu landi,“ segir í yfirlýsingu Arababandalagsins, sem segist hissa yfir viðbrögðum ESB.

Framkvæmdastjórar Sameinuðu þjóðanna, Evrópusambandsins og UNICEF hafa kallað eftir því að báðar hliðar leggi niður vopn og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sendi frá sér svipaða tilkynningu í síðustu viku, um að báðar hliðar þurfi að sýna stillingu. Yousef Ingi Tamimi, stjórnarmeðlimur í Félaginu Ísland-Palestína, hefur gagnrýnt þessi viðbrögð og sagt í samtali við Fréttablaðið að ekki væri hægt að tala um tvær hliðar í hernámi.

„Það er vitað að það er hernám í gangi Í Palestínu, að einn aðili sé að hernema annan, það fer ekki á milli mála. Þjóðir, sem verið er að hernema, hafa rétt á því að berjast til baka, að beita vopnum gegn hernámsliði. Að biðja báðar, eða allar hliðar, að sýna stillingu er fyrir mér eins og að biðja þolanda ofbeldis um að hætta að verja sig,“ segir Yousef í samtali við Fréttablaðið.

Alþingi Íslands viðurkenndi sjálfstæði og fullveldi Palestínu árið 2011 og viðurkennir því hernám Ísraela.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fundaði í gær vegna stöðunnar í Ísrael og Palestínu. Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF, greindi frá því að 55 börn hafi verið drepin á Gaza og tvö börn í Ísrael í árásum síðustu vikna. Hún kallar eftir diplómatískri lausn.

„Búið er að eyðileggja skólabyggingar, heimili og starfsstöðvar á Gaza. Heilu fjölskyldurnar hafa verið þurrkaðar út. Eins er búið að skemma skólabyggingar, heimili og aðrar byggingar í Ísrael. Við verðum að stöðva ofbeldi, morð og hatur. Við verðum að virða alþjóðleg mannréttindi og mannúðarlög,“ sagði Henrietta Fore.

Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur einnig kallað eftir tafarlausu vopnahléi en Benj­a­min Net­an­y­ah­u, for­sæt­is­ráð­herr­a Ísra­els, hefur lýst því yfir að á­rás­ir Ísra­els­hers gegn liðs­mönn­um Ham­as-sam­tak­ann­a á Gaza muni hald­a á­fram í ein­hvern tíma. Ekki verð­i dreg­ið úr kraft­i loft­á­rás­a á Gaza og mark­mið­ið sé að láta Ham­as „gjald­a dýru verð­i“ fyr­ir eld­flaug­a­á­rás­ir á Ísra­el.