Eitt ár er í dag liðið síðan upp­reisnar­menn Talí­bana náðu völdum í Kabúl, höfuð­borg Afgan­istans, og for­seti landsins, Ashrif Ghani, flúði land. Breska ríkis­út­varpið, BBC, fjallar ítar­lega um stöðu mála í landinu í til­efni af þessum tíma­mótum.

Hræðilegar aðstæður

Þó að að­eins ár sé liðið frá því að Afgan­istan féll aftur í hendur Talí­bana hafa mann­réttinda­sam­tök bent á að mikil aftur­för hafi orðið hvað varðar mann­réttindi í landinu. Þúsundur manna hafa flúið landið á undan­förnum mánuðum.

„Það er búið að vera ömur­legt að fylgjast með þróun mála í Afgan­istan undan­farna níu mánuði síðan Tali­banar tóku yfir. Það er alveg hægt að segja að allar verstu spár eru að annað­hvort búnar að rætast eða eru að rætast og þá sér­stak­lega fyrir konur og kven­réttindi,“ sagði Brynja Huld Óskars­dóttir, öryggis- og varnar­mála­fræðingur, í sam­tali við Frétta­blaðið í maí síðast­liðnum.

Í frétt BBC er rætt við Ann Linde, utan­ríkis­ráð­herra Sví­þjóðar, sem segir að Talí­banar hafi skapað „hræði­legar“ að­stæður fyrir konur og stúlkur í landinu. Hún segir að öll lof­orð Talí­bana um aukin réttindi kvenna hafi verið svikin. „Staðan núna, fyrir konur og stúlkur í Afgan­istan, er al­gjör mar­tröð,“ segir hún.

Ann Linde segir að þjóðir heims megi ekki gefast upp í bar­áttu sinni fyrir auknum mann­réttindum og lýð­ræði í landinu.

Búa enn á hótelum

Í frétt BBC er einnig fjallað um þá fjöl­mörgu flótta­menn frá Afgan­istan sem yfir­gáfu landið eftir valda­töku Talí­bana. Þúsundir fóru til Bret­lands og eru sumir hverjir enn­þá bú­settir á hótelum.

Í þeim hópi er Marwa Koofi sem bjó á hóteli með bræðrum sínum og systur í Yorks­hire. Marwa dvelur nú á hóteli í London þar sem hún byrjar brátt í námi við King‘s College, en á sama tíma eru tveir aðrir bræður hennar á hóteli í Manchester og systir hennar er bú­sett á hóteli í Leeds.

Breska innan­ríkis­ráðu­neytið segir í svari til BBC að nú þegar hafi sjö þúsund af­ganskir flótta­menn fengið hús­næði út­hlutað en þeirri vinnu sé ekki lokið.

Bágt efna­hags­á­stand er einn af fylgi­fiskum valda­tökunnar og það hefur sýnt sig á síðustu mánuðum. Matar- og birgða­skortur gerði vart við sig í fyrra­vetur en með mann­úðar­að­stoð hjálpar­sam­taka tókst að af­stýra verstu hörmungunum. Afgan­istan hefur í gegnum árin þurft að reiða sig á að­stoð annarra ríkja en eftir valda­töku Talí­bana skrúfuðu margar þjóðir fyrir þá að­stoð, þó í­búar hafi notið góðs af starfi mann­úðar­sam­taka.