Eftir helgina er liðið eitt ár frá ör­laga­ríku slysi sem Svava Magnús­dóttir og vin­konu­hópur hennar varð fyrir á Tenerife þegar toppur af pálma­tré féll ofan á þær, þar sem þær höfðu ný­verið sest niður á veitinga­stað.

Svava segir sögu sína í við­tali í helgar­blaði Frétta­blaðsins en hún varð fyrir al­var­legum mænu­skaða og er lömuð fyrir neðan mitti. Hún segir að raun hefði getað farið miklu verr og trúir því að æðri máttar­völd hafi vakað yfir henni.

„Það eru margir í verri stöðu en ég. Það var ein­hver sem vakti yfir mér og vil ég trúa því að það hafi verið amma mín og al­nafna og geri enn. Ég var ekki feig. Ég er með hausinn og hann er alveg enn þá í lagi og ég er með hendurnar mínar.

Skaðinn minn er frá mitti og niður úr. Þetta hefði alveg getað verið verra. Ég hefði alveg getað komið heim í duft­keri – þessi lína er svo of­boðs­lega fín.

Við verðum að þakka fyrir það sem við höfum. Ég fékk annað tæki­færi – ég virki­lega horfi á það þannig.

Það var ó­metan­legt að fá skila­boð frá fjöl­skyldu, vinum og ó­trú­legasta fólki sem ég hafði ekki heyrt frá í mörg ár og það stytti mér sannar­lega stundirnar á spítalanum. Bara það að fólk væri að hugsa til mín, það hjálpaði ó­trú­lega mikið. Þegar ég svo mátti loks fara að hitta fólk sagði það oft: „Ég veit ekki hvað ég á að segja.“ Og ég svaraði: „Gefðu mér bara knús.““