Oddur Ævar Gunnarsson
odduraevar@frettabladid.is
Sunnudagur 28. febrúar 2021
08.00 GMT

„Maður var nú ó­viss. Ég þreyttist aldrei á að segja að maður vissi ekki hvernig þetta yrði.“

Þetta sagði Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varnar­læknir á upp­lýsinga­fundi al­manna­varna nú á dögunum, að­spurður að því hvort hann hefði trúað því á sínum fyrsta upp­lýsinga­fundi al­manna­varna þann 28. febrúar í fyrra að ári síðar yrði hann enn í því að standa fyrir svörum á upp­lýsinga­fundum vegna út­breiðslu kórónu­veirunnar sem veldur CO­VID-19 sjúk­dómnum.

„Ég hélt fyrir ári síðan að við myndum fá meiri út­breiðslu hér innan­lands og að þetta yrði kannski búið síðast­liðið haust, eða vetur,“ sagði Þór­ólfur.

„Ég taldi þá að við myndum ekki fá bólu­efni á síðast­liðna ári. Það myndi taka meiri tíma. Þannig jú, margt hefur komið á ó­vart en annað ekki.“

Atburðarásina þekkja flestir og vill meiri­hluti ef­laust horfa fram á við í stað þess að líta í bak­rúðu­spegilinn eftir það sem á undan hefur gengið. Veiran enda greinst í 6049 manns, dregið 29 til dauða og verið í brenni­depli frétta á Ís­landi og um allan heim síðast­liðið ár og rúm­lega það.

Fyrsta smitið setti landið á hliðina

Ár er liðið í dag síðan að fjöl­miðlar hér á landi greindu frá því að ís­lenskur karl­maður á fimm­tugs­aldri hefði fyrstur greinst hér á landi með veiruna. Maðurinn hafði verið í skíða­ferð á Ítalíu á­samt eigin­konu sinni og dóttur.

Boðað var til blaða­manna­fundar þar sem þrí­eykið svo­kallaða stóð fyrir svörum og hættu­stig al­manna­varna var virkjað í fyrsta sinn. Greint var frá því að maðurinn hefði verið utan skil­greinds hættu­svæðis vegna veirunnar.

Þá varð uppi fótur og fit í Há­skólanum í Reykja­vík sama dag. Nem­endum í markaðs­fræði var nokkuð brugðið þegar kennsla var trufluð og nemandi sem tengdist hinum smitaða var beðinn um að yfir­gefa skóla­ bygginguna. CO­VID-19 hafði í fyrsta sinn sett mark sitt á ís­lenskt sam­fé­lag og við tók röð hertra að­gerða og til­slakana.

Forsíða Fréttablaðsins laugardaginn 29. febrúar 2020.
COVID-19 smit þar sem Íslendingar dvöldu á hóteli á Tenerife í febrúar vakti mikla athygli.

Í sam­tali við Frétta­blaðið þann 1. mars 2020 sagðist maðurinn sem smitaðist fyrstur á Ís­landi, opin­ber­lega að minnsta kosti, vera með lítil ein­kenni. „Það væsir því ekki um mig og ég geri ekki ráð fyrir öðru en að ná fullum bata.“

Þórólfur sagði í samtali við blaðið nokkrum dögum síðar að hann teldi að faraldurinn yrði yfirstaðinn á Íslandi rúmum tveimur mánuðum síðar. Helsta markmið almannavarna væri að gera verkefnið viðráðanlegt á hverjum tíma.

Forsíða 3. mars 2020. Þar sagðist Þórólfur bjartsýnn á að faraldurinn yrði yfirstaðinn tveimur mánuðum síðar.

„Þessi veira er dálítið smitandi og þetta gæti tekið um einn til tvo mánuði ef ekkert væri að gert.“


Þann 16. mars 2020 tók samkomubann gildi á Íslandi. Síðan þá hefur verið slíkt bann við lýði í mismiklum mæli.

„Við eigum ekki að fylgja neinu í blindni heldur gagn­rýna og spyrja“

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn Íslands, eins og hann mætti nú kalla.
Fréttablaðið/Anton Brink

Þann 28. nóvember síðast­liðinn, þegar far­aldurinn hafði geysað á Ís­landi í níu mánuði og þriðja bylgjan svo­kallaða stóð sem hæst sagði Víðir Reynis­son, yfir­lög­reglu­þjónn al­manna­varna, sem titla mætti sem „yfir­lög­reglu­þjón Ís­lands“ eftir árið, að hann hefði lært heil­mikið um mikil­vægi sam­starfsins í far­aldrinum.

„Svo held ég að ég sé orðinn opnari og víð­­sýnni, ég tek til dæmis gagn­rýni betur en ég gerði,” sagði Víðir sem sagðist líka hafa hitt sál­fræðing til þess að fara yfir málin.

Hlýðum Víði

„Um­­burðar­­lyndi, sam­­staða og sam­vinna er það sem hefur komið okkur í gegnum þennan far­aldur og mun verða lykillinn að því að klára þetta mál í sam­einingu,” segir Víðir. „Þjóðin er búin að vera ó­­­trú­­lega flott og hefur sýnt mikinn þroska í því að taka um­­ræðu og spyrja erfiðra spurningu. Við eigum ekki að fylgja neinu í blindni heldur gagn­rýna og spyrja.“


„Um­­burðar­­lyndi, sam­­staða og sam­vinna er það sem hefur komið okkur í gegnum þennan far­aldur og mun verða lykillinn að því að klára þetta mál í sam­einingu.”


Með í­trekuðu jafnaðar­gerði sínu væri hægt að full­yrða að Víði hafi sí­endur­tekið tekist að stappa stálinu í þjóðina á erfiðustu tímum far­aldursins og þjóðin flykkti sér að baki honum og úr varð þjóðarátakið hlýðum Víði.

Fyrstu sorgartíðindin bárust að norðan

Upp úr miðjum marsmánuði 2020 bárust fyrstu fregnir af and­látum vegna veirunnar.

Þann 17. mars bárust fréttir af því að ástralskur ferða­maður á fer­tugs­aldri hefði látist á Heil­brigðis­stofnun Norður­lands á Húsa­vík og að hann hefði verið smitaður af CO­VID-19. Alma Möller, land­læknir greindi frá því tveimur dögum síðar að miklar líkur væru taldar á því að hann hefði látist úr sjúk­dómnum en maðurinn hafði verið á ferða­lagi hér á landi með eigin­konu sinni.

Viku síðar, þann 24. mars greindi Frétta­blaðið frá því að eldri kona með undir­liggjandi sjúk­dóm hefði látist á Land­spítalanum. Hún var fyrsti Ís­lendingurinn til að látast vegna veirunnar en 28 aðrir áttu eftir að fylgja í kjölfarið á næstu mánuðum.

Faraldurinn tók öll völd á forsíðu Fréttablaðsins í mars þegar greint var frá fyrstu andlátunum.

Kára þáttur

Undir lok mars mánuðar fór Kári Stefáns­son, for­stjóri Ís­lenskrar erfða­greiningar strax að hasla sér völl í um­ræðunni hér á landi vegna veirunnar. Í helgar­við­tali í Frétta­blaðinu þá sagðist hann telja veiruna myndu setja sam­fé­lagið á hliðina í tvö ár.

Fréttablaðið/Valli

Það skiptust á skin og skúrir í samskiptum Kára við stjórnmálamenn landsins. Hann bauð af gæsku og hugulsemi fram aðstoð til þjóðar sinnar en hætti gjarnan jafnharðan við vegna meintra ósiða og dónaskapar sem hann mátti þola af stjórnmálastétt landsins. Svo fór þó á endanum að Kári skimaði nánast alla þjóðina sem stóð í röðum eftir að fá að njóta þjónustu hans.

Kári Stefánsson prýddi forsíðu Fréttablaðsins þann 28. mars 2020.

Ferðast innanhúss

Sumarið kom og virtist um stund sem veiran væri horfin. Þríeykið hélt að það hefði haldið sinn síðasta upplýsingafund og blés til hópsöngs.

Þríeykið fékk blómvendi á því sem allir héldu að yrði síðasti upplýsingafundurinn þann 25. maí.
Fréttablaðið/Anton Brink

Bylgmingshögg

Önnur og þriðja bylgja komu svo eins og bylmingshögg, með alvarlegri hópsýkingu á Landakoti sem dró sautján manns til dauða.

Tímalína um COVID-19 á Íslandi:

Ekkert að velta sér upp úr leyndar­málum fólks

Þorbjörg Inga Þorsteinsdóttir í starfi sínu hjá smitrakningarteyminu.
Aðsend/Jóhannes Kr. Kristjánsson

Hjúkrunar­fræðingurinn og lög­fræðingurinn Þor­björg Inga Þor­steins­dóttir var fengin til liðs við smitrakningar­teymi al­manna­varna þegar fyrstu smitin komu upp hér á landi síðasta vor eftir að hún skráði sig í bak­varða­sveitina. Í sam­tali við Frétta­blaðið segir hún að Ís­lendingar hafi al­mennt unnið vel með smitrakningar­teyminu en munur hafi verið á hegðun fólks eftir bylgjum.

„Það er ó­trú­legt að það sé ár síðan,“ segir Þor­björg. Hún segir að­spurð að þegar hringt var í hana og hún beðin um að mæta átta í fyrra­málið daginn eftir í sam­hæfingar­stöð al­manna­varna í Skógar­hlíð, hafi hún ekki gert sér grein fyrir því hvað hún væri að fara út í. „Ég sá það hins­vegar strax að þetta var rosa­leg sam­vinna. Þetta var al­gjör liðs­heild og við höfðum það öll að mark­miði að koma í veg fyrir út­breiðslu smita. Það höfðu allir sitt hlut­verk svo maður var fljótur að detta í þennan gír og vinna með þessari heild. Þetta var stór hópur, þannig þetta var auð­vitað bara mjög sér­stakt, að koma þarna inn.“

„Við teiknum þetta upp til að auðvelda yfirsýn og stoppa keðjuna.“
Mynd/Almannavarnir

Hegðunin breyttist milli bylgja

Þor­björg segir að fólk hafi verið sér­stak­lega sam­vinnu­þýtt í fyrstu bylgjunni þegar minna var vitað um sjúk­dóminn.

„En það sem maður fann samt strax að fólk vann þetta alltaf með okkur. Við urðum náttúru­lega að hringja í hvern og einn einasta sem greindist með CO­VID og allar á­kvarðanir sem við tókum í teyminu byggja á frá­sögnum þessara ein­stak­linga. Við erum ekki á staðnum til að vega og meta hvað þú varst að gera heldur þurfum við bara að taka okkar á­kvarðanir út frá frá­sögnum þessara ein­stak­linga. Það voru allir ó­trú­lega sam­vinnu­þýðir. Það var rosa­legur vilji til að vinna þetta með okkur og gefa okkur upp allar upp­lýsingar sem við þurftum til að vinna þessa vinnu.“


„Við fundum fyrir því að það gat verið erfitt inn á milli að fá upp­lýsingar. [...] En það er þá kannski hluti af þessari smit­skömm, sem við viljum helst eyða.“


Hún segir að hún muni ekki eftir neinu dæmi í fyrstu bylgjunni þar sem smitrakningar­teymið hafi mætt mót­læti. Það hafi hins­vegar örlað á ör­lítið meiri tregðu í ein­staka til­vikum hjá fólki við að veita upp­lýsingar í annarri og þriðju bylgju.

„Við fundum fyrir því að það gat verið erfitt inn á milli að fá upp­lýsingar. Mér finnst samt á­stæða til að taka fram að það eru undan­tekningar­til­vik. Lang­flestir gáfu okkur upp­lýsingar og þetta byggir náttúru­lega bara á trausti. Trausti milli okkar og þess sem greinist með CO­VID. Lang­flestir veittu upp­lýsingarnar en við fundum alveg fyrir því að inn á milli voru ein­staklingar sem voru lengur að gefa okkur þessar upp­lýsingar, eins og það væri ein­hver tregða þarna. En það er þá kannski hluti af þessari smit­skömm, sem við viljum helst eyða.“

Yfirlit yfir staðsetningu og fjölda COVID-19 smita á Íslandi.
Mynd/Almannavarnir

Þor­björg segir það stað­reynd að margir þeirra sem smituðust hafi átt mjög erfitt and­lega og hafi þurft að takast á við óttann um að hafa smitað sína nánustu. „Við fundum að­eins meira fyrir þessu í þessari seinnu bylgju, af því að fólk vissi líka meira um þetta.“

Þessi undan­tekningar­til­vik, var fólk hrein­lega að ljúga, eða vildi það ekki segja frá?

„Þetta eru auð­vitað mörg þúsund sím­töl sem við höfum tekið og auð­vitað hefur fólk alveg líka verið upp­víst að því að segja okkur ekki satt eða að hag­ræða sann­leikanum að­eins og segja okkur ekki allt saman. Það er auð­vitað á­kveðið á­fall að greinast með CO­VID, sér­stak­lega ef þú hefur ekki verið í sótt­kví, greinist bara ein­hvers­staðar og ert búinn að vera að hitta fólk. Það tekur við­komandi kannski líka tíma að koma þessu öllu frá sér,“ segir hún.

„Við höfum þurft að byggja upp traust og sann­færa við­komandi um að upp­lýsingarnar sem hann er að gefa geta skipt svo gríðar­lega miklu máli. Ég held að okkur hafi tekist mjög vel til með að sann­færa fólk um að gefa okkur upp­lýsingar jafn­vel þó það reynist við­komandi erfitt.“

Þorbjörg segir að hún hafi fljótt gert sér grein fyrir því hve mikið teymi væri um að ræða.
Aðsend/Jóhannes Kr. Kristjánsson

Allur til­finninga­skalinn

Hún segir fljótt hafa vanist því að eiga í jafn per­sónu­legum sam­tölum og smitrakningar­sam­tölin eru. „Við sem erum í þessum sím­tölum erum heil­brigðis­menntað fólk og erum ágæt í þessum sam­skiptum og höfum reynslu af þessu, að hjálpa fólki að takast á við erfið­leika. Það hefur líka hjálpað okkur í þessari vinnu og við höfum reynt eftir fremsta megni að gefa fólki tíma.

Sumir eru bara mjög fljótir að segja okkur allt saman, á meðan öðrum reynist þetta erfiðara og þetta eru mörg sím­töl og það er grátið og hlegið og þetta er bara allur til­finninga­skalinn. Þetta vandist og við þekkjum þetta vel. Við vorum líka komin með skýra verk­ferla og vorum með nokkurn veginn hand­rit að sím­tali um það hvað við þurfum að fá frá við­komandi. Þannig þetta lærðist allt saman.“

Að­spurð um eftir­minni­leg sím­töl segir Þor­björg að sím­tölin vegna hóp­sýkinga á Landa­koti og á Vest­fjörðum komi helst upp í hugann. „Það var rosa­lega erfitt mál og mikill skellur fyrir heil­brigðis­kerfið og okkur öll að þetta hafi komið upp,“ segir hún um Landa­kots­málið.  „Það reyndi mikið á heil­brigðis­kerfið, því þarna fengum við sýkingu inn í veikan hóp.“

Ítarlegra upplýsinga er þörf í hverju einasta tilfelli sem upp kemur.
Mynd/Almannavarnir

Kom þér eitt­hvað á ó­vart hvað fólk á mikið af leyndar­málum?

„Nei við vorum ekkert að velta okkur upp úr þessum hlutum. Eina sem við horfum til er hvern ertu búinn að vera að hitta? Okkur er alveg sama í hvaða til­gangi heldur þurfum við bara að vita hver það er og hver þarf að fara í sótt­kví. Við vorum ekki að velta þessum hlutum fyrir okkur og það var það sem við reyndum að segja við fólk. Að það er traust þarna á milli og að þér er ó­hætt að segja okkur þessa hluti. Af því að það eina sem við erum að horfa á er bara veiran og allt annað er auka­at­riði.“

Hún segist gífur­lega stolt af vinnu smitrakningar­teymisins. „Maður sá ein­hvern veginn strax hvað þetta er mikið teymi. Allir hafa sín skil­greindu hlut­verk og fólk sogaðist rosa­lega inn í þetta verk­efni. Við vorum bara vakin og sofin yfir þessu en reyndum auð­vitað að skipta okkur upp í vaktir því það er mikil­vægt að fá hvíld frá þessu líka,“ segir hún. Hefði þess ekki notið við segist Þor­björg viss um að hér hefði þurft að grípa til ein­hers­konar út­göngu­banns eins og í löndunum í kringum okkur.

„Af því að þarna náðum við að hemja út­breiðsluna svo vel með því að beita ein­angrun og sótt­kví. Svo hjálpaði smæðin okkur auð­vitað líka. Við erum auð­vitað bara lítil eyja og ég er ekki viss um að þetta sé ger­legt í stærri og fjöl­mennari líkum. En fólk hlýðir og fer eftir þessu. Það er líka stóra málið í þessu að það fer eftir því sem við erum að biðja það um að gera.“

Handa­hóf virðist ráða því hvort fólk glími við eftir­köst

Anna Margrét nennti lítið að ræða veiruna í samtali við Fréttablaðið nú, eins og svo margir.
Fréttablaðið/Ernir

Frétta­blaðið greindi frá því í sumar að hundruð Ís­lendinga þjáðust af lang­varandi ein­kennum COVID-19 og að lítið væri vitað innan heil­brigðis­kerfisins um slík eftir­köst. Sandra Lili­ana Magnús­dóttir lýsti því í sam­tali við blaðið að hún væri enn að jafna sig á eftir­köstum eftir að hafa sýkst af veirunni í apríl á síðasta ári.

Ein­kenni Söndru voru dæmi­gerð fyrir fólki sem hafði greinst með veiruna, en mest hefur borið á ein­kennum á borð við orku­leysi, skort á bragð- og lyktarskyni, þróttleysi, höfuðverk, mæði, ein­beitingar­skorti, vöðvaverkjum og hjart­sláttar­truflunum.

Sandra hefur enn ekki jafnað sig af öllum fylgi­fiskum veirunnar núna í lok febrúar. „Ég er ekki enn­þá komin með al­menni­legt lyktar­skyn og þjáist einnig af mikilli mæðu.“ Þá er hún nú í eftir­liti hjá hjarta­lækni vegna hjart­sláttar­truflana sem hún hlaut í kjöl­far veikindanna.

„Það veit enginn hvort eða hve­nær lyktar­skynið eða þrótturinn kemur aftur.“ Lungun líti þó vel út á myndum.

„Það veit enginn hvort eða hve­nær lyktar­skynið eða þrótturinn kemur aftur.“

Sandra segir að enga lausn sé í sjónar­málið þar sem lítið sé vitað um lang­varandi ein­kenni.

Það sé enn erfiðara að sinna hvers­dags­legum at­höfnum líkt og áður en hún smitaðist en líðanin fari þó smátt og smátt batnandi. Eins og blaðið hefur greint frá stendur Land­læknis­em­bættið og Ís­lensk erfða­greining fyrir rann­sókn á þeim sem greinst hafa með CO­VID-19.

Handa­hófið eitt virðist ráða því hvort að ein­staklingar glíma við eftir­köst. Ó­líkt Söndru hefur at­hafna­konan Anna Margrét Jóns­dóttir jafnað sig að fullu. Frétta­blaðið greindi frá veikindum Önnu í mars í fyrra.

„Þetta er ekkert grín, hef aldrei fengið svona svæsna flensu og heyri þið það sem eruð að tala um að þetta sé BARA flensa,“ sagði Anna við til­efnið. „Þetta byrjaði sem væg flensa, hálsbólga og kvef. Ég hætti síðan að finna bragð á fimmta degi - ekki gott. Flensan hefur svo frekar versnað - dagur níu var verstur. Ég stend í þeirri trú að þetta sé að batna nú í kvöld, á degi 10, maður verður bara að halda það.“

Hún var ekkert sér­lega spennt fyrir veirutali þegar blaðið heyrði í henni á árs­af­mæli ís­lenska kófsins. Hún sagðist hinsvegar vera hress. „Ég er bara hrika­lega kát og er ein af þeim sem er ekki að díla við eftir­köst.“

Athugasemdir