„Maður var nú óviss. Ég þreyttist aldrei á að segja að maður vissi ekki hvernig þetta yrði.“
Þetta sagði Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir á upplýsingafundi almannavarna nú á dögunum, aðspurður að því hvort hann hefði trúað því á sínum fyrsta upplýsingafundi almannavarna þann 28. febrúar í fyrra að ári síðar yrði hann enn í því að standa fyrir svörum á upplýsingafundum vegna útbreiðslu kórónuveirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum.
„Ég hélt fyrir ári síðan að við myndum fá meiri útbreiðslu hér innanlands og að þetta yrði kannski búið síðastliðið haust, eða vetur,“ sagði Þórólfur.
„Ég taldi þá að við myndum ekki fá bóluefni á síðastliðna ári. Það myndi taka meiri tíma. Þannig jú, margt hefur komið á óvart en annað ekki.“
Atburðarásina þekkja flestir og vill meirihluti eflaust horfa fram á við í stað þess að líta í bakrúðuspegilinn eftir það sem á undan hefur gengið. Veiran enda greinst í 6049 manns, dregið 29 til dauða og verið í brennidepli frétta á Íslandi og um allan heim síðastliðið ár og rúmlega það.
Fyrsta smitið setti landið á hliðina
Ár er liðið í dag síðan að fjölmiðlar hér á landi greindu frá því að íslenskur karlmaður á fimmtugsaldri hefði fyrstur greinst hér á landi með veiruna. Maðurinn hafði verið í skíðaferð á Ítalíu ásamt eiginkonu sinni og dóttur.
Boðað var til blaðamannafundar þar sem þríeykið svokallaða stóð fyrir svörum og hættustig almannavarna var virkjað í fyrsta sinn. Greint var frá því að maðurinn hefði verið utan skilgreinds hættusvæðis vegna veirunnar.
Þá varð uppi fótur og fit í Háskólanum í Reykjavík sama dag. Nemendum í markaðsfræði var nokkuð brugðið þegar kennsla var trufluð og nemandi sem tengdist hinum smitaða var beðinn um að yfirgefa skóla bygginguna. COVID-19 hafði í fyrsta sinn sett mark sitt á íslenskt samfélag og við tók röð hertra aðgerða og tilslakana.


Í samtali við Fréttablaðið þann 1. mars 2020 sagðist maðurinn sem smitaðist fyrstur á Íslandi, opinberlega að minnsta kosti, vera með lítil einkenni. „Það væsir því ekki um mig og ég geri ekki ráð fyrir öðru en að ná fullum bata.“
Þórólfur sagði í samtali við blaðið nokkrum dögum síðar að hann teldi að faraldurinn yrði yfirstaðinn á Íslandi rúmum tveimur mánuðum síðar. Helsta markmið almannavarna væri að gera verkefnið viðráðanlegt á hverjum tíma.

„Þessi veira er dálítið smitandi og þetta gæti tekið um einn til tvo mánuði ef ekkert væri að gert.“

„Við eigum ekki að fylgja neinu í blindni heldur gagnrýna og spyrja“

Þann 28. nóvember síðastliðinn, þegar faraldurinn hafði geysað á Íslandi í níu mánuði og þriðja bylgjan svokallaða stóð sem hæst sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna, sem titla mætti sem „yfirlögregluþjón Íslands“ eftir árið, að hann hefði lært heilmikið um mikilvægi samstarfsins í faraldrinum.
„Svo held ég að ég sé orðinn opnari og víðsýnni, ég tek til dæmis gagnrýni betur en ég gerði,” sagði Víðir sem sagðist líka hafa hitt sálfræðing til þess að fara yfir málin.
Hlýðum Víði
„Umburðarlyndi, samstaða og samvinna er það sem hefur komið okkur í gegnum þennan faraldur og mun verða lykillinn að því að klára þetta mál í sameiningu,” segir Víðir. „Þjóðin er búin að vera ótrúlega flott og hefur sýnt mikinn þroska í því að taka umræðu og spyrja erfiðra spurningu. Við eigum ekki að fylgja neinu í blindni heldur gagnrýna og spyrja.“
„Umburðarlyndi, samstaða og samvinna er það sem hefur komið okkur í gegnum þennan faraldur og mun verða lykillinn að því að klára þetta mál í sameiningu.”
Með ítrekuðu jafnaðargerði sínu væri hægt að fullyrða að Víði hafi síendurtekið tekist að stappa stálinu í þjóðina á erfiðustu tímum faraldursins og þjóðin flykkti sér að baki honum og úr varð þjóðarátakið hlýðum Víði.
Fyrstu sorgartíðindin bárust að norðan
Upp úr miðjum marsmánuði 2020 bárust fyrstu fregnir af andlátum vegna veirunnar.
Þann 17. mars bárust fréttir af því að ástralskur ferðamaður á fertugsaldri hefði látist á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík og að hann hefði verið smitaður af COVID-19. Alma Möller, landlæknir greindi frá því tveimur dögum síðar að miklar líkur væru taldar á því að hann hefði látist úr sjúkdómnum en maðurinn hafði verið á ferðalagi hér á landi með eiginkonu sinni.
Viku síðar, þann 24. mars greindi Fréttablaðið frá því að eldri kona með undirliggjandi sjúkdóm hefði látist á Landspítalanum. Hún var fyrsti Íslendingurinn til að látast vegna veirunnar en 28 aðrir áttu eftir að fylgja í kjölfarið á næstu mánuðum.

Kára þáttur
Undir lok mars mánuðar fór Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar strax að hasla sér völl í umræðunni hér á landi vegna veirunnar. Í helgarviðtali í Fréttablaðinu þá sagðist hann telja veiruna myndu setja samfélagið á hliðina í tvö ár.

Það skiptust á skin og skúrir í samskiptum Kára við stjórnmálamenn landsins. Hann bauð af gæsku og hugulsemi fram aðstoð til þjóðar sinnar en hætti gjarnan jafnharðan við vegna meintra ósiða og dónaskapar sem hann mátti þola af stjórnmálastétt landsins. Svo fór þó á endanum að Kári skimaði nánast alla þjóðina sem stóð í röðum eftir að fá að njóta þjónustu hans.

Ferðast innanhúss
Sumarið kom og virtist um stund sem veiran væri horfin. Þríeykið hélt að það hefði haldið sinn síðasta upplýsingafund og blés til hópsöngs.

Bylgmingshögg
Önnur og þriðja bylgja komu svo eins og bylmingshögg, með alvarlegri hópsýkingu á Landakoti sem dró sautján manns til dauða.
Tímalína um COVID-19 á Íslandi:
Ekkert að velta sér upp úr leyndarmálum fólks

Hjúkrunarfræðingurinn og lögfræðingurinn Þorbjörg Inga Þorsteinsdóttir var fengin til liðs við smitrakningarteymi almannavarna þegar fyrstu smitin komu upp hér á landi síðasta vor eftir að hún skráði sig í bakvarðasveitina. Í samtali við Fréttablaðið segir hún að Íslendingar hafi almennt unnið vel með smitrakningarteyminu en munur hafi verið á hegðun fólks eftir bylgjum.
„Það er ótrúlegt að það sé ár síðan,“ segir Þorbjörg. Hún segir aðspurð að þegar hringt var í hana og hún beðin um að mæta átta í fyrramálið daginn eftir í samhæfingarstöð almannavarna í Skógarhlíð, hafi hún ekki gert sér grein fyrir því hvað hún væri að fara út í. „Ég sá það hinsvegar strax að þetta var rosaleg samvinna. Þetta var algjör liðsheild og við höfðum það öll að markmiði að koma í veg fyrir útbreiðslu smita. Það höfðu allir sitt hlutverk svo maður var fljótur að detta í þennan gír og vinna með þessari heild. Þetta var stór hópur, þannig þetta var auðvitað bara mjög sérstakt, að koma þarna inn.“

Hegðunin breyttist milli bylgja
Þorbjörg segir að fólk hafi verið sérstaklega samvinnuþýtt í fyrstu bylgjunni þegar minna var vitað um sjúkdóminn.
„En það sem maður fann samt strax að fólk vann þetta alltaf með okkur. Við urðum náttúrulega að hringja í hvern og einn einasta sem greindist með COVID og allar ákvarðanir sem við tókum í teyminu byggja á frásögnum þessara einstaklinga. Við erum ekki á staðnum til að vega og meta hvað þú varst að gera heldur þurfum við bara að taka okkar ákvarðanir út frá frásögnum þessara einstaklinga. Það voru allir ótrúlega samvinnuþýðir. Það var rosalegur vilji til að vinna þetta með okkur og gefa okkur upp allar upplýsingar sem við þurftum til að vinna þessa vinnu.“
„Við fundum fyrir því að það gat verið erfitt inn á milli að fá upplýsingar. [...] En það er þá kannski hluti af þessari smitskömm, sem við viljum helst eyða.“
Hún segir að hún muni ekki eftir neinu dæmi í fyrstu bylgjunni þar sem smitrakningarteymið hafi mætt mótlæti. Það hafi hinsvegar örlað á örlítið meiri tregðu í einstaka tilvikum hjá fólki við að veita upplýsingar í annarri og þriðju bylgju.
„Við fundum fyrir því að það gat verið erfitt inn á milli að fá upplýsingar. Mér finnst samt ástæða til að taka fram að það eru undantekningartilvik. Langflestir gáfu okkur upplýsingar og þetta byggir náttúrulega bara á trausti. Trausti milli okkar og þess sem greinist með COVID. Langflestir veittu upplýsingarnar en við fundum alveg fyrir því að inn á milli voru einstaklingar sem voru lengur að gefa okkur þessar upplýsingar, eins og það væri einhver tregða þarna. En það er þá kannski hluti af þessari smitskömm, sem við viljum helst eyða.“

Þorbjörg segir það staðreynd að margir þeirra sem smituðust hafi átt mjög erfitt andlega og hafi þurft að takast á við óttann um að hafa smitað sína nánustu. „Við fundum aðeins meira fyrir þessu í þessari seinnu bylgju, af því að fólk vissi líka meira um þetta.“
Þessi undantekningartilvik, var fólk hreinlega að ljúga, eða vildi það ekki segja frá?
„Þetta eru auðvitað mörg þúsund símtöl sem við höfum tekið og auðvitað hefur fólk alveg líka verið uppvíst að því að segja okkur ekki satt eða að hagræða sannleikanum aðeins og segja okkur ekki allt saman. Það er auðvitað ákveðið áfall að greinast með COVID, sérstaklega ef þú hefur ekki verið í sóttkví, greinist bara einhversstaðar og ert búinn að vera að hitta fólk. Það tekur viðkomandi kannski líka tíma að koma þessu öllu frá sér,“ segir hún.
„Við höfum þurft að byggja upp traust og sannfæra viðkomandi um að upplýsingarnar sem hann er að gefa geta skipt svo gríðarlega miklu máli. Ég held að okkur hafi tekist mjög vel til með að sannfæra fólk um að gefa okkur upplýsingar jafnvel þó það reynist viðkomandi erfitt.“

Allur tilfinningaskalinn
Hún segir fljótt hafa vanist því að eiga í jafn persónulegum samtölum og smitrakningarsamtölin eru. „Við sem erum í þessum símtölum erum heilbrigðismenntað fólk og erum ágæt í þessum samskiptum og höfum reynslu af þessu, að hjálpa fólki að takast á við erfiðleika. Það hefur líka hjálpað okkur í þessari vinnu og við höfum reynt eftir fremsta megni að gefa fólki tíma.
Sumir eru bara mjög fljótir að segja okkur allt saman, á meðan öðrum reynist þetta erfiðara og þetta eru mörg símtöl og það er grátið og hlegið og þetta er bara allur tilfinningaskalinn. Þetta vandist og við þekkjum þetta vel. Við vorum líka komin með skýra verkferla og vorum með nokkurn veginn handrit að símtali um það hvað við þurfum að fá frá viðkomandi. Þannig þetta lærðist allt saman.“
Aðspurð um eftirminnileg símtöl segir Þorbjörg að símtölin vegna hópsýkinga á Landakoti og á Vestfjörðum komi helst upp í hugann. „Það var rosalega erfitt mál og mikill skellur fyrir heilbrigðiskerfið og okkur öll að þetta hafi komið upp,“ segir hún um Landakotsmálið. „Það reyndi mikið á heilbrigðiskerfið, því þarna fengum við sýkingu inn í veikan hóp.“

Kom þér eitthvað á óvart hvað fólk á mikið af leyndarmálum?
„Nei við vorum ekkert að velta okkur upp úr þessum hlutum. Eina sem við horfum til er hvern ertu búinn að vera að hitta? Okkur er alveg sama í hvaða tilgangi heldur þurfum við bara að vita hver það er og hver þarf að fara í sóttkví. Við vorum ekki að velta þessum hlutum fyrir okkur og það var það sem við reyndum að segja við fólk. Að það er traust þarna á milli og að þér er óhætt að segja okkur þessa hluti. Af því að það eina sem við erum að horfa á er bara veiran og allt annað er aukaatriði.“
Hún segist gífurlega stolt af vinnu smitrakningarteymisins. „Maður sá einhvern veginn strax hvað þetta er mikið teymi. Allir hafa sín skilgreindu hlutverk og fólk sogaðist rosalega inn í þetta verkefni. Við vorum bara vakin og sofin yfir þessu en reyndum auðvitað að skipta okkur upp í vaktir því það er mikilvægt að fá hvíld frá þessu líka,“ segir hún. Hefði þess ekki notið við segist Þorbjörg viss um að hér hefði þurft að grípa til einherskonar útgöngubanns eins og í löndunum í kringum okkur.
„Af því að þarna náðum við að hemja útbreiðsluna svo vel með því að beita einangrun og sóttkví. Svo hjálpaði smæðin okkur auðvitað líka. Við erum auðvitað bara lítil eyja og ég er ekki viss um að þetta sé gerlegt í stærri og fjölmennari líkum. En fólk hlýðir og fer eftir þessu. Það er líka stóra málið í þessu að það fer eftir því sem við erum að biðja það um að gera.“
Handahóf virðist ráða því hvort fólk glími við eftirköst

Fréttablaðið greindi frá því í sumar að hundruð Íslendinga þjáðust af langvarandi einkennum COVID-19 og að lítið væri vitað innan heilbrigðiskerfisins um slík eftirköst. Sandra Liliana Magnúsdóttir lýsti því í samtali við blaðið að hún væri enn að jafna sig á eftirköstum eftir að hafa sýkst af veirunni í apríl á síðasta ári.
Einkenni Söndru voru dæmigerð fyrir fólki sem hafði greinst með veiruna, en mest hefur borið á einkennum á borð við orkuleysi, skort á bragð- og lyktarskyni, þróttleysi, höfuðverk, mæði, einbeitingarskorti, vöðvaverkjum og hjartsláttartruflunum.
Sandra hefur enn ekki jafnað sig af öllum fylgifiskum veirunnar núna í lok febrúar. „Ég er ekki ennþá komin með almennilegt lyktarskyn og þjáist einnig af mikilli mæðu.“ Þá er hún nú í eftirliti hjá hjartalækni vegna hjartsláttartruflana sem hún hlaut í kjölfar veikindanna.
„Það veit enginn hvort eða hvenær lyktarskynið eða þrótturinn kemur aftur.“ Lungun líti þó vel út á myndum.
„Það veit enginn hvort eða hvenær lyktarskynið eða þrótturinn kemur aftur.“
Sandra segir að enga lausn sé í sjónarmálið þar sem lítið sé vitað um langvarandi einkenni.
Það sé enn erfiðara að sinna hversdagslegum athöfnum líkt og áður en hún smitaðist en líðanin fari þó smátt og smátt batnandi. Eins og blaðið hefur greint frá stendur Landlæknisembættið og Íslensk erfðagreining fyrir rannsókn á þeim sem greinst hafa með COVID-19.
Handahófið eitt virðist ráða því hvort að einstaklingar glíma við eftirköst. Ólíkt Söndru hefur athafnakonan Anna Margrét Jónsdóttir jafnað sig að fullu. Fréttablaðið greindi frá veikindum Önnu í mars í fyrra.
„Þetta er ekkert grín, hef aldrei fengið svona svæsna flensu og heyri þið það sem eruð að tala um að þetta sé BARA flensa,“ sagði Anna við tilefnið. „Þetta byrjaði sem væg flensa, hálsbólga og kvef. Ég hætti síðan að finna bragð á fimmta degi - ekki gott. Flensan hefur svo frekar versnað - dagur níu var verstur. Ég stend í þeirri trú að þetta sé að batna nú í kvöld, á degi 10, maður verður bara að halda það.“
Hún var ekkert sérlega spennt fyrir veirutali þegar blaðið heyrði í henni á ársafmæli íslenska kófsins. Hún sagðist hinsvegar vera hress. „Ég er bara hrikalega kát og er ein af þeim sem er ekki að díla við eftirköst.“