Veðurstofa Íslands hefur gefið út appelsínugula viðvörun vegna lægðar sem kemur til með að ganga yfir Suðurland, Suðausturland og miðhálendið. Búist er við 15 til 25 metra á sekúndu og gera verstu spár ráð fyrir meðalvindhraða yfir 30 metrum og hviður upp í 40 metra á suðurströndinni.

Appelsínugul viðvörun er skilgreind sem svo á heimasíðu Veðurstofunnar að miðlungs eða miklar líkur eru á veðri sem valdið getur miklum samfélagslegum áhrifum. Veðrið getur valdið tjóni og/eða slysum og ógnar mögulega lífi og limum ef aðgát er ekki höfð.  Tímabundin eða staðbundin skerðing geti verið á samgöngum og þjónustu.

Áður voru gular viðvaranir í gildi á sama svæði og er því búið að hækka viðvörunarstigið. Lægðin mun ganga yfir seinnipartinn á morgun og byrjar að lægja upp undir þriðjudagsmorgun, en þá tekur við ágætisveður. Rigning fylgir lægðinni á láglendi en hún verður minniháttar. Veðurfræðingur á vakt hjá Veðurstofu Íslands segir að verst verður veðrið frá Eyjafjöllum og austur að Öræfum. „Það er ekkert ferðaveður á þessum slóðum,“ segir veðurfræðingur á vakt.