Veður­stofan hefur fram­lengt appel­sínu­gula við­vörun sína á vestur­hluta landsins þar til klukkan 18 á morgun. Mikil úr­koma hefur verið á vestur­helmingi landsins síðast­liðinn sólar­hring og á­fram er spáð úr­komu fram á morgun­daginn. Sam­hliða því hefur rennsli í ám og lækjum á svæðinu aukist mjög mikið og segir í til­kynningu frá Veður­stofunni að á­fram megi búast við miklum vatna­vöxtum og aukinni hættu á skriðu­föllum.

„Það er búið að vera alls­konar vatns­veður í dag og vegir farið í sundur. Núna er það orðið meira en bara að huga að niður­föllum. Við lengdum við­vörunina og nú gildir hún til klukkan 18 á morgun. Það er því öll nóttin og morgun­dagurinn líka. Bæði í Faxa­flóa og Breiða­firði og svo má ekki gleyma því að það er líka gul við­vörun á Vest­fjörðum,“ segir Þor­steinn V. Jóns­son, veður­fræðingur hjá Veður­stofu Ís­lands, í sam­tali við Frétta­blaðið í kvöld.

Enn hætta á skriðuföllum þó það hætti að rigna

Hann segir að þó það dragi úr rigningu sé hættan ekki liðin hjá því þá sé enn tals­verð hætta á skriðu­föllum á svæðinu og að ár haldi enn á­fram að vaxa.

„Það er verst ef það fellur yfir vegi og lokar þeim, eins og gerðist í Svína­dalnum í dag. Það hefur flætt víða yfir í dag. Við erum að búast við því þetta verði á­fram í nótt og fram eftir morgun­deginum. Það fer að draga úr þessu seint á morgun, fyrst austan- og sunnan­lands. Það rignir þá á­fram á Breiða­firði og Vest­fjörðum á morgun. „Það er enn hætta því jörðin dregur enn í sig vatnið og árnar bólgna enn. Þetta stendur að­eins lengur en við bjuggumst við í gær. Þetta er alla­vega ekki búið,“ segir Þor­steinn.

Hann segir að þó það megi búast við ein­hverri úr­komu um helgina, verði veður tals­vert betra en það hefur verið. Á­fram verði hlýtt á bæði norð­austur- og austur­landi.

Hann hvetur fólk sem er á ferð um landi til al­mennrar var­úðar, að fylgjast með við­vörunum Veður­stofunnar og færð vega hjá Vega­gerðinni.

Á heimasíðu Vegagerðarinnar er vel merkt hvar hafa orðið vatnaskemmdir og hvar þurfi að fara með gát.
Mynd/Vegagerðin

Víða flætt yfir vegi

Á heima­síðu Vega­gerðarinnar má sjá að skriða hefur lokað vegi yst á Skarðs­strönd og að búast megi við frekari skemmdum. Fólk á ferð um vestur­land er beðið að fara um með mikilli gát.

Á færðar­korti Vega­gerðarinnar má sjá að víða á Vestur­landi og á Vest­fjörðum flæddi vatn upp á vegi og sums staðar farið að myndast skarð í veginn eða hann jafn­vel farinn í sundur.

Björgunar­sveitir björguðu þremur ferða­mönnum í dag.

Björgunar­sveitir á Vestur­landi voru kallaðar út eftir há­­degi vegna fólks sem varð inn­lyksa í Langa­­vatns­­­dal. Vegna vatna­vaxta hafði vegurinn farið í sundur. Að­gerðum lauk á vett­vangi um klukkan 16, en þurfti að kalla þyrlu Land­helgis­gæslunnar til vegna þess að vegurinn hafði farið í sundur.