Ó­vissu­stig vegna skriðu­hættu er nú í gildi á Austur­landi og hættu­stig í gildi á Seyðis­firði. Þá hefur Veður­stofan gefið út appel­sínu­gula við­vörun sem tekur gildi klukkan 17 á Austu­fjörðum vegna mikillar rigningar. Tals­verðar líkur eru á að vatns­tjón verði víða í lands­hlutanum í kvöld og á morgun.

Á­fram verður mikil hætta á vatns­flóðum og skriðu­föllum á Aust­fjörðum fram á morgun­dag. Skriður féllu á Seyðis­firði í gær og hafa fjöl­mörg hús í bænum verið rýmd. Stærsta skriðan féll síð­degis úr Botna­brún og olli tals­verðu tjóni.

Í­búar húsanna sem voru rýmd hafa í dag fengið hjálp við að sækja nauð­synjar í húsin á meðan var úr­komu­lítið. Sam­kvæmt upp­lýsingum frá lög­reglunni á Austur­landi verður rýmingin á­fram í gildi fram á morgun­daginn en staðan þá endur­skoðuð.

Aftur á að bæta veru­lega í regnið klukkan 17 í dag og segir lög­reglan afar mikil­vægt að allir þeir sem hafi fengið að fara aftur inn á rýmingar­svæðið í dag til að huga að eigum sínum verði komnir þaðan í síðasta lagi klukkan 16:30.

Það dregur að­eins aftur úr rigningunni í kvöld en sam­kvæmt Veður­stofunni mun hún taka sig upp enn aftur á sama tíma á morgun, klukkan 17. Appel­sínu­gula við­vörunin verður í gildi til klukkan 9 í fyrra­málið. Þá minnkar við­vörunar­stigið niður í gult og helst þannig út morgun­daginn.

Við svo miklar rigningar eykst grunn­vatns­þrýstingur í lands­hlutanum mikið og við­halda rigningarnar í dag og á morgun þeirri háu grunn­vatns­stöðu sem hefur myndast á síðustu dögum. Því er á­fram hætta á vatns­flóðum og skriðu­föllum í öllum lands­hlutanum. Tals­vert álag er á frá­veitu­kerfinu og miklar líkur á vatns­tjóni.

Veður­stofan birti í dag nýtt mynd­band af aur­skriðunni sem féll í gær. Það tók Daníel Örn Gísla­son hjá björgunar­fé­laginu Ís­ólfi í morgun. Mynd­bandið sýnir vel hvernig skriður hafa um­leikið húsin í byggðinni.