„Hugmyndin er að koma fyrir tveimur 235 metra zip- línum af fjórðu hæð Perlunnar,“ segir í erindi Perlu Norðursins ehf. til skipulagsyfirvalda í Reykjavík þar sem óskað er leyfis til að koma fyrir eins konar aparólu í Öskjuhlíðinni.

Gunnar Gunnarsson, eigandi Perlu Norðursins, segist ekkert vilja upplýsa um áformin að svo stöddu. Í erindi félagsins segir að línurnar eigi að liggja í átt að Fossvogskirkjugarði og enda í skógarrjóðri.

„Flogið verður yfir tré og yfir gamla óvirka Strók. Það er draumur okkar að koma lendingarpallinum fyrir inni í skógarrjóðrinu en við höfum fengið heimild til að færa til nokkur hálfdauð tré frá Skógræktarstjóra,“ segir í bréfi Perlu Norðursins.

Lendingarpallurinn verði nær þrettán metra hár en muni lítið sjást þar sem tré í kring séu hærri.

„Vegna hæðar línunnar eru engar líkur á því að hægt sé að rekast á fólk á göngustígum,“ segir áfram í bréfinu. Jafnvel þótt „karlkyns gíraffi væri á gangi“ myndi yfir tveggja metra maður svífa þrjá metra yfir þriggja metra háum gíraffanum.

„Fætur Zip-línugests sem er tveggja metra hár munu vera í tæpum níu metrum yfir Öskjuhlíðinni.“