Nokkuð undarlegt atvik kom upp í indversku borginni Meerut nú á dögunum þegar hópur apa stal blóðsýnum úr sjúklingum með staðfest kórónaveirusmit. Reuters greinir frá.

Lífeindafræðingur við læknaskóla í Meerut í norðanverðu Indlandi var á háskólalóðinni að flytja blóðsýni úr fjórum sjúklingum með COVID-19 þegar aparnir réðust á hann og stálu öllum flöskunum.

Heilbrigðisyfirvöld á Indlandi greindu frá atvikinu í gær. Forsvarsmaður háskólans sagði í samtali við Reuters að ekkert bendi til þess að aparnir gætu smitast af COVID-19 frá blóði úr mannfólki.

Ekki er vitað hvort aparnir hafi hellt niður blóðinu en íbúar á svæðinu óttast að atvikið gæti haft hræðilegar afleiðingar.

Lífeindafræðingurinn tók upp myndband þar sem einn apanna sést sitja uppi í tré. Apinn virðist halda á hanska eða pappírsþurrku sem hann á að hafa tekið af lífeindafræðingnum.

Þónokkrir netverjar héldu að þetta væri gabbfrétt frá grínveitunni The Onion enda minnir þessi lygilega frásögn á framtíðartrylli á borð við Apaplánetuna og 28 dögum síðar.