Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur breytt heitinu á sjúkdómnum apabólu. Áður kallaðist hann Monkeypox en með breytingu stofnunarinnar mun sjúkdómurinn nú þekkjast undir nafninu Mpox.
Breytingin kemur í ljósi þess að heitið monkeypox, sem er áratugagamalt, hafði verið tengt við mismunun og kynþáttafordóma. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.
Mpox, nýja heitið verður notað í bland við fyrra heitið næsta árið, en það er gert til þess að einfalda misskilning sem gæti komið upp ef heitinu hefði skyndilega verið breytt.
Á Íslandi hafa sextán apabólusmit greinst, að sögn Guðrúnar Aspelund, sóttvarnarlæknis. Þá hafa um þrjú hundruð einstaklingar þegið bólusetningu gegn sjúkdómnum.
Guðrún var ekki orðin vör við að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefði breytt um heiti sjúkdómsins þegar blaðamaður Fréttablaðsins sló á þráðinn, enda nýskeð þá.
Hún segir breytingu á heitinu vera hið besta mál, en ekki liggur fyrir hvort íslenska heitið muni breytast í kjölfar þessarar breytingar.
