Mjög kalt hefur verið á Þingvöllum í gær og í dag en mestur mældist kuldinn um 22 stiga frost. Einar Á. Sæmundsen þjóðgarðsvörður segir það ekki stöðva ferðamenn og að daglega heimsæki um þúsund til. 1500 ferðamenn þjóðgarðinn, þrátt fyrir kulda.
„Það er búið að vera mjög kalt en það er ekki óalgengt að það slái í svona frost hjá okkur. Það gerist,“ segir Einar.
Hann segir ferðamennina oft vera að byrja Gullna hringinn hjá þeim og að fólk sé rosalega duglegt að fara um svæðið.
„Við ryðjum 200 bílastæði á dag og fjóra til fimm kílómetra af göngustígum til að það sé fært um svæðið. Söndum og gerum græjum,“ segir hann og að þrátt fyrir harðavetur sé mikil umferð um þjóðgarðinn.
Hann áætlar að nú komi um 1.500 manns á dag en til samanburðar séu um fimm þúsund manns, en á mjög góðum degi slái það í allt að átta þúsund mann á dag.
„Þá er þetta alveg frá 9 til 17. Það er tíminn sem mest er um að vera. Svo hljóðnar allt eftir það á sumrin. Við fylgjum svipaðri rútínu á veturna. Það er færra fólk á ferð og dagsbirtan skammtar fólki tímann á gullna hringnum,“ segir Einar og að yfirleitt sé mest að gera hjá þeim um 11 til 12 á daginn.
Margir ylja sér á gestastofunni
Tryggvi Jóhannesson Eyjar starfar í þjónustumiðstöðinni á Þingvöllum, eða gestastofunni upp á Haka, og segir marga hafa heimsótt þau í dag en að flestir haldi sig inni á gestastofunni. Það séu margir búnir að bóka sér hring um Gullna hringinn og nýti tímann hjá þér til að hlýja sér í stað þess að skoða.
„Það er slatti af fólki búið að koma í dag,“ segir Tryggvi og að það sé farið að hlýna eftir að sólin fór að skína.
„En það var ansi kalt í morgun þegar við vorum í mínus 22 og algeru myrkri,“ segir hann en hann ekur á Þingvelli á hverjum morgni í vinnuna.
Hann segir daginn þó ekki hafa gengið áfallalaust fyrir sig því ein kona hafi handleggsbrotnað í hálkunni í morgun.
Hann segir að þrátt fyrir mikinn kulda sé opið í Silfru og hægt að ganga um svæðið.
