Mikið er leitað til Sjúkratrygginga Íslands vegna mála sem tengjast háum tannréttingakostnaði barna. „Já, það er mikið leitað til okkar,“ segir Ingibjörg K. Þorsteinsdóttir, sviðsstjóri tryggingasviðs hjá Sjúkratryggingum.

Kostnaður getur hlaupið á milljónum fyrir foreldra barna sem þurfa tannréttingar á sama tíma og styrkur frá Sjúkratryggingum hefur ekki hækkað í áratugi og dekkar aðeins örlítið brot kostnaðar í mörgum tilvikum. 150.000 króna styrkur sem nú er greiddur ætti að vera 340.000 krónur miðað við vísitöluhækkanir.

„Ég verð að vísa á ráðuneytið, þetta er bundið í reglugerð og þessi grein sem varðar þessa styrki hefur ekki breyst í mörg ár. Þetta er ekkert sem við hér höfum stjórn á,“ segir Ingibjörg.

Spurð um misrétti í þessum efnum, að styrkurinn hafi ekki hækkað á sama tíma og verð þjónustu hafi hækkað og megi því færa rök fyrir að tannréttingar barna hafi ekki verið dýrari fyrir heimili um áratuga skeið, segir Ingibjörg:

„Ég held að það sé ekki rétt að ég tjái mig um mína skoðun persónulega.“

Ein ástæða þess að lagfæringar á tannréttingakerfinu hafa ekki orðið sem skyldi, eru að mati tannsérfræðinga sem Fréttablaðið hefur rætt við, að samskiptum tannlækna, ráðuneytis og Sjúkratrygginga Íslands hafi verið ábótavant.

„Nei, þetta get ég staðfest, ég veit ekki betur en að samskiptin hafi verið jákvæð, við höfum verið með samsráðsnefnd og hún hefur gengið mjög vel,“ segir Ingibjörg. „En þetta eru háar fjárhæðir sem geta farið í tannréttingar. Styrkurinn er stundum dropi í hafið,“ bætir hún við.

Ekkert viðbragð barst frá heilbrigðisráðuneytinu í gær þrátt fyrir fyrirspurn blaðsins.