Ýr Sigurðardóttir barnataugalæknir starfar bæði á Barnaspítala Hringsins á Íslandi og á Nemours-spítalanum í Orlando í Flórída. Hún segir að hún sjái það vel í Flórída hversu gott við höfum það í raun á Íslandi þegar kemur að Covid-heimsfaraldrinum.

Ýr segir að í Flórída taki marga daga að fá niðurstöðu úr PCR-prófi, ef fólk kemst í það á annað borð, það sé erfitt að fá greiningu á því hvaða afbrigði fólk fær og svo séu öll heimapróf uppseld.

„Það er allt hálftómt í verslunum hér og jafnvel skortur á ýmsum nauðsynjavörum. Það er furðulegt ástand hérna og maður hugsar þá hvað við Íslendingar kannski gerum okkur ekki grein fyrir því hversu greiðan aðgang við höfum að fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu, sem kostar lítið sem ekkert,“ segir Ýr en síðustu tvær vikurnar hefur hún dvalið í Flórída þar sem hún hefur, meðal annars, sinnt börnum sem veikst hafa alvarlega af Covid-19, og jafnvel látist.

„Það er gríðarleg aukning tilfella meðal barna, bæði hér í Flórída og á Íslandi,“ segir Ýr og að það sé töluverður fjöldi barna sem veikst hafi það alvarlega að til innlagnar hafi komið.

„Sum þeirra sem leggjast inn hafa aðra undirliggjandi sjúkdóma sem versna við Covid-sýkingu. Þeir sjúklingar sem við taugalæknarnir komum að eru yfirleitt lífshættulega veikir. Ég er búin að vera hérna í hálfan mánuð og það hefur orðið eitt Covid-dauðsfall. Áður hraustur þriggja ára drengur. Við slíkar aðstæður blasir við manni hvað það skiptir miklu máli að koma í veg fyrir þetta. Hvert dauðsfall barns er óyfirstíganlegur harmleikur,“ segir Ýr og bætir við:

„Ég vil ekki hljóma eins og ég sé með bölsýni en við sem störfum erlendis sjáum stærra þýði og þá detta inn þessir mikið veiku sjúklingar. Þá fær maður „reality check“ á það hversu raunveruleg þessi veikindi eru og að maður þurfi að bera virðingu fyrir veirunni, en það er kannski erfitt fyrir marga að gera það þegar flestir virðast vera með væg einkenni,“ segir Ýr.

Ég er búin að vera hérna í hálfan mánuð og það hefur orðið eitt Covid-dauðsfall. Áður hraustur þriggja ára drengur. Við slíkar aðstæður blasir við manni hvað það skiptir miklu máli að koma í veg fyrir þetta. Hvert dauðsfall barns er óyfirstíganlegur harmleikur

Áhættan tekur á foreldrahjartað

Hún segir það sama gilda í Bandaríkjunum og hér á Íslandi að foreldrum þyki mörgum erfitt að taka ákvörðun um bólusetningu barns síns.

„Það tekur á foreldrahjartað ef því fylgir einhver áhætta. Það eru svipaðar umræður hér og á Íslandi og sama hik á fólki. En þegar maður sér mjög veik börn með eitthvað sem hefði kannski verið hægt að fyrirbyggja þá sannfærist maður um það að bólusetningin sé það eina rétta. Ég ætla samt ekki að gefa mig út fyrir að vera sérfræðingur í bólusetningum en angistin sem fylgir því að vera með barnið sitt, lítið, lífshættulega veikt, það er hrikalegt.“

Hún segir að þau börn sem hún hitti sem hafa veikst af völdum Covid-19 séu yfirleitt þau sem hafa veikst mjög alvarlega. Til dæmis hafi einn drengur endað á hennar deild sem fór í hjartastopp en því getur fylgt súrefnisskortur sem geti leitt til heilans og til afleidds skaða.

„Svo eru það þau sem fara í bólguástand, eða það sem er kallað MIS-C. Þá fer bólga um allan líkamann og í alla vefi. Þá er oft samfara því alvarleg breyting á meðvitundarstigi og hætta á krömpum, heilablóðfalli og/eða blæðingum á heila,“ segir Ýr og að þess vegna sé hún og hennar teymi kallað til.

Spurð hvort það hafi einhver tilfelli ratað til hennar vegna alvarlegra veikinda sem tengst gætu bólusetningu gegn Covid-19 segir hún ekkert slíkt tilfelli hafa komið til þeirra. Hvað varðar langtímaáhrif-Covid eða „Long-Covid“ eins og það er stundum kallað segir Ýr að hún merki ekki sérstaka aukningu á því meðal barna en að hjá þeim sem hafi verið með langtímaveikindi fyrir hafi þau mögulega versnað við Covid-sýkingu.