Donald Trump á nú aðeins einn dag eftir í embætti sem forseti Bandaríkjanna en Joe Biden tekur við embættinu á morgun, klukkan 17 að íslenskum tíma. Áætlað er að meðal hinstu verkefna Trumps í embætti verði náðanir en talið er að náðanirnar gætu verið yfir 100 talsins.

Óljóst er enn hverjir verða náðaðir í dag en að því er kemur fram í frétt New York Times hafa einstaklingar á borð við rapparann Lil Wayne og Sheldon Silver, fyrrum forseti ríkisþingsins í New York, verið nefndir á nafn í tengslum við náðanir.

Þá hafa aðilar tengdir forsetanum verið nefndir á nafn, til að mynda Rudy Giuliani, lögmaður Trumps, og Steve Bannon, fyrrverandi ráðgjafi Trumps, en það er þó talið ólíklegt að þeir verði náðaðir. Þá er ekki talið að Trump muni náða sjálfan sig eða fjölskyldumeðlimi í dag, en það er þó ekki útilokað.

Eiga enn eftir að ákveða örlög Trumps

Öldungadeild Bandaríkjaþings á enn eftir að taka fyrir ákærurnar til embættismissis á hendur Trumps en fulltrúadeildin ákærði hann formlega í síðustu viku fyrir að hvetja til uppreisnar eftir að stuðningsmenn hans réðust inn í þinghúsið þann 6. janúar síðastliðinn.

Fimm manns létust eftir óeirðirnar við þinghúsið í Washington-borg þar sem ítrekaðar fullyrðingar Trumps um að kosningasvindl hafi átt sér stað í forsetakosningunum á síðasta ári ýttu undir mótmæli stuðningsmanna.

Trump er eini forsetinn sem hefur tvisvar verið ákærður til embættismissis. Ef tveir þriðju öldungadeildarþingmanna samþykkja ákærurnar mun Trump ekki fá að sinna embætti forseta í framtíðinni en margir óttast að ef Trump verður ekki sakfelldur þá muni hann bjóða sig aftur fram.

Óljóst er hvenær Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, mun senda ákærurnar til öldungadeildarinnar en réttarhöldin gætu gert það að verkum að mál sem tengjast embættistöku Bidens frestist og því sé Pelosi að tefja málið.

Tafir á tilnefningum í lykilstöður

Bandaríkjaþing kom saman fyrr í dag til þess að taka fyrir tilnefningar í embætti ríkisstjórnar Bidens en tilnefningar hans hafa tafist töluvert vegna mótmæla þingmanna í kringum kosningarnar. Ljóst er að ekki verði hægt að greiða atkvæði um tilnefningar Bidens strax og því mun Biden hefja kjörtímabil sitt án ákveðinna lykilaðila.

Þó nokkrir aðilar munu koma fram fyrir nefndir öldungadeildarinnar í dag, þar á meðal Anthony J. Blinken, sem Biden tilnefndi sem utanríkisráðherra, Lloyd J. Austin III, sem Biden tilnefndi til varnarmálaráðherra, og Janet Yellen, sem Biden tilnefndi sem fjármálaráðherra.

Þá verða einnig tilnefningar Biden til heimavarnarráðherra og yfirmanns leyniþjónustumála teknar fyrir. Á meðan tilnefningarnar hafa ekki enn verið samþykktar hefur verið skipað tímabundið í ákveðin embætti.

Þrátt fyrir að það sé ólíklegt að Repúblikanar hafni tilnefningum geta þeir þó tafið ferlið töluvert og því gæti Biden verið án lykilaðila í einhvern tíma.

Trump verður ekki viðstaddur

Mikil öryggisgæsla er nú í borginni þar sem óttast er að frekari óeirðir brjótist út fyrir embættistöku Bidens. Um 25 þúsund meðlimir þjóðvarðliðs Bandaríkjanna hafa nú verið sendir til borgarinnar en bakgrunnur allra er skoðaður gaumgæfilega þar sem það er talið mögulegt að önnur árás komi innan frá.

Sjálfur mun Trump ekki vera viðstaddur í borginni á morgun þegar Biden tekur við embætti forseta og Kamala Harris tekur við embætti varaforseta en hefð er fyrir því að fráfarandi forseti taki á móti nýkjörnum forseta.

Þess í stað mun Trump yfirgefa Washington í fyrramálið þar sem hann mun vera með lítinn viðburð á Joint Base Andrews herstöðinni í Maryland. Þaðan mun hann síðan halda til Flórída. 

Eiga erfitt verk fyrir höndum

Biden og Harris eiga erfitt verk fyrir höndum þegar þau taka við embætti en Biden mun að öllum líkindum eyða fyrstu dögunum í embætti í að snúa við stefnu Trumps í hinum ýmsu málum og ógilda tilskipanir. Þannig muni Bandaríkin aftur ganga í Parísarsamkomulagið og umdeildu „múslimabanni“ Trumps verði aflétt.

Þá munu þau einnig þurfa að takast á við COVID-19 faraldurinn sem er nú í mikilli uppsveiflu í Bandaríkjunum um þessar mundir. Þannig muni hann viðhalda ferðabanni sem sett var á til að hindra útbreiðslu COVID-19, samþykkja efnahagsaðgerðir til að bregðast við áhrifum COVID-19, og leggja fram tilskipanir um sóttvarnareglur.