Það er fínt hljóðið í þingflokki Vinstri grænna en nóg af verkefnum, að sögn Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra eftir fund þingflokksins í gær. „Katrín gerði þingflokknum grein fyrir stöðu viðræðna og við skiptumst á skoðunum. Þetta er bara alveg á fyrstu stigum,“ segir Svandís.

Aðspurð um umhverfismálin sem hafa verið erfið í stjórnarsamstarfinu, einkum hálendisþjóðgarðsmálið, segir Svandís ekkert liggja fyrir þar að lútandi. „Það er ekki búið að botna það en það er eitt af þeim verkefnum sem liggur fyrir að þurfi að komast til botns í, í þessum stjórnarmyndunarviðræðum,“ segir hún.

Heimildir blaðsins herma að Sjálfstæðisflokkurinn leggi áherslu á að fá heilbrigðismálin til sín. „Það eru öll spil á borðinu, ótímabært að ræða þessa hluti,“ segir heilbrigðisráðherra innt eftir því hvað Vinstri græn myndu vilja fá í staðinn.