Svo virðist sem annarri bensín­sprengju hafi verið kastað í átt að íbúð á Freyjugötu í miðbæ Reykjavíkur. Mynd­band af bensínsprengjunni er nú í dreifingu á sam­fé­lags­miðlum.

Á mynd­bandinu sést maður stíga út úr bíl og kasta bensín­sprengju beint á húsið. Annar aðili þakkar honum svo fyrir og segir við manninn: „Þú færð þetta svo marg­falt fokking borgað.“

Af myndbandinu að dæma er fólkið á Freyjugötu og er að finna greinileg ummerki eftir eld á húsi á Freyjugötu. Allir gluggar í húsinu virðast einnig brotnir en heppilega hefur ekki kviknað í húsinu öllu. Fréttablaðið hefur undir höndum myndband af atvikinu sem má sjá hér að neðan.

Allir gluggar á húsinu eru brotnir.
Fréttablaðið/Ari

Mikil átök og spenna hafa verið í undir­heimunum síðustu daga eftir að karl­maður birti mynd­band af sér að ganga í skrokk á öðrum manni á sam­fé­lags­miðlinum Face­book.

Eins og greint hefur verið frá hand­tók lög­regla manninn fyrr í vikunni vegna mynd­bandsins en honum var sleppt eftir yfir­­heyrslu. Tveimur dögum eftir hand­töku mannsins kviknaði eldur í íbúð hans eftir að bensín­sprengju var kastað inn.

Fram kom í tilkynningu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu frá því í morgun voru tveir karlar á þrítugsaldri voru handteknir á höfuðborgarsvæðinu í nótt og húsleitir framkvæmdar í tengslum við rannsókn lögreglu á bruna, líkamsárás og hótunum. Lögreglan naut aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra í aðgerðunum.