Kórónu­veiru­til­fellum fer nú aftur fjölgandi í mörgum ríkjum Evrópu og hafa yfir­völd víða á­kveðið að grípa til tak­markana. Yfir­völd í Belgíu segja að fjórða bylgjan sé hafin, Lettar skelltu í lás á dögunum vegna fjölgunar til­fella og þá hafa til­felli í Þýska­landi ekki verið jafn mörg síðan í maí

CNN fjallar um þetta á vef sínum og segir að „annar veiru­vetur“ sé við það að skella á í Evrópu.

Lé­leg þátt­taka í bólu­setningum víða

Í um­fjöllun CNN er bent á að lé­legri þátt­töku í bólu­setningum víða sé kennt um stöðuna. Lett­land er tekið sem dæmi um þetta en á dögunum á­kváðu yfir­völd þar að setja á út­göngu­bann sem gildir til 15. nóvember. Þar í landi hafa að­eins 56% ein­stak­linga 18 ára og eldri fengið tvo skammta af bólu­efnum, en meðal­talið í öðrum Evrópu­sam­bands­ríkjum er 74,6%.

Frétta­maðurinn Sveinn Helga­son ræddi stöðu mála í Lett­landi í sam­tali við RÚV í gær. Sagði hann að á­standið vegna CO­VID-19 væri al­var­legt og smitum fjölgað mikið undan­farnar vikur. Sagði Sveinn að yfir­völd hefðu reynt ýmis­legt til að hvetja fólk til að fara í bólu­setningu en án árangurs.

„Hér hafa menn þurft að sýna fram á Co­vid-passa til að komast inn á staði eins og veitinga­hús. Þetta hefur ekki dugað. Vegna þess að hlut­fall bólu­settra er ekki hærra þá
verða fleiri al­var­lega veikir og láta lífið. Síðustu vikur hafa um 25 and­lát orðið á hverjum degi og heildar­tala látinna er komin yfir þrjú þúsund manns,“ sagði hann.

Staðan einna verst í austur­hluta Evrópu

Yfir­völd í Rúmeníu hafa á­kveðið að setja á út­göngu­bann á kvöldin og næturnar og þá verður bólu­setningar­vott­orðs krafist á fjöl­mennum við­burðum. Dánar­tíðni vegna CO­VID-19 er einna hæst í Rúmeníu af löndum Evrópu.

Sam­kvæmt tölum Al­þjóða­heil­brigðis­stofnunarinnar er Evrópa eina heims­álfan þar sem til­fellum virðist fara fjölgandi þessa dagana. Undan­farnar þrjár vikur hefur til­fellum fjölgað dag frá degi og er staðan einna verst í austur­hluta Evrópu og Rúss­landi, að því er fram kemur í frétt CNN.

Fjórða bylgjan skollin á

Eins að framan greinir hefur til­fellum í Þýska­landi einnig fjölgað tals­vert að undan­förnu. Á laugar­dag greindust 100 ný smit fyrir hverja hundrað þúsund íbúa og er það í fyrsta skipti síðan í maí sem hlut­fallið fer yfir 100. Þá er bent á að staðan sé einnig nokkuð al­var­leg í Belgíu og Ír­landi til dæmis.

Frank Vanden­brouch, heil­brigðis­ráð­herra Belgíu, sagði í fréttum á dögunum að fjórða bylgjan væri skollin á af fullum þunga í landinu – þrátt fyrir góðan árangur í bólu­setningum. Nú eru 85% full­orðinna ein­stak­linga full­bólu­settir og eru al­var­leg veikindi mest meðal þeirra sem eru óbólu­settir.