Stór skjálfti varð klukkan hálf fimm í dag, 4,3 að stærð að sögn vaktahafandi jarðfræðings á Veðurstofu Íslands. Fleiri minni skjálftar hafa fylgt í kjölfarið.

Skjálftinn átti upptök sín einn kílómetra vestur af Keili. Skjálftinn sem varð klukkan 15:39 í dag átti upptök sín 1,5 kílómetra vestur af Keili.

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands, segir skjálftana vera að færa sig eftir sprungu norðaustur, nær Keili.

Keilir.

„Þetta eru tveir skjálftar yfir fjórum sem við erum búin að sjá síðasta klukkutímann. Þessi síðari var rétt vestan Keili. Við fylgjumst með þessu en þeir hafa verið að færa sig. Þeir voru fyrst staðbundnir við norðurenda Fagradalsfjall en hafa svo færst eftir stóra skjálftann sem var 5,7 að stærð. Virknin hefur verið að færast norðaustur, nær Hafnarfirði,“ segir Kristín í samtali við Fréttablaðið.

Skjálftahrinan er ekkert að róast líkt og íbúar á Reykjanesinu og á höfuðborgarsvæðinu hafa fundið.

Af athugasemdum lesenda og netverja að dæma fannst skjálftinn vel um allt Reykjanes og víða um allt höfuðborgarsvæðið. Einnig fann fólk á Ákranesi, Hvalfirði og í Borgarfirði fyrir örlitlum skjálfta, líkt og í hádeginu í dag.