Í nótt klukkan 03:17 mældist annar stærsti eftirskjálftinn við Vatnafjöll, að stærð 3,5.

Nokkur skjálftavirkni hefur verið á svæðinu síðan 11. nóvember síðastliðinn þegar skjálfti að stærð 5,2 mældist.

Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.

Í síðustu viku mældust rúmlega 980 jarðskjálftar með sérstöku mælikerfi Veðurstofu Íslands, talsvert fleiri en í vikunni á undan þegar um 720 jarðskjálftar mældust.

Talsverð aukning hefur verið á jarðskjálftavirkni um allt land síðustu þrjár vikur ef horft er til mælinga Veðurstofunnar, fjöldi jarðskjálfta hefur farið úr 540 upp í 980.

Í síðustu viku mældust sjö skjálftar yfir 3 að stærð, sá stærsti var 3,9 að stærð þann 18. nóvember í Vatnafjöllum sunnan við Heklu.