Búist er við sunnan­átt og rigningu sunnan- og vestan til á landinu í dag og gert er ráð fyrir að hiti verði á bilinu tíu til fimm­tán stig.

Það stingur í stúf við veðrið á norð­austan­verðu landinu en þar verður þurrt og bjart og hiti á milli 16 til 23 gráður líkt og fyrri daginn. Það má gera ráð fyrir að ferða­menn í fjórðungnum gleðjist yfir þeirri spá.

Í kvöld lægir og styttir upp sam­kvæmt veður­fræðingi Veður­stofunnar og verður morgun­dagurinn þurrari. Spáð er fremur hægri suð­vestan átt yfir daginn en um kvöldið gengur í sunnan 10 til 15 metra á sekúndu og fer að rigna við vestur­ströndina.

Þá fara hita­tölur lækkandi og kólnar um allt land. Hiti verður á bilinu tíu til á­tján stig, hlýjast á Suð­austur­landi.