Í daga hafa mælst tveir skjálftar yfir 3 að stærð í Kleifarvatni. Sá stærri varð klukkan 12:39 og var 3,5 að stærð. Sá fyrri var klukkan 10:46 og mældist að stærð 3,3. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni fundust báðir skjálftarnir víða á höfuðborgarsvæðinu en þeim hafa borist margar tilkynningar.

„Við fundum vel fyrir honum hérna,“ sagði Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur á jarðvakt Veðurstofunnar, í samtali við Fréttablaðið fyrr í dag en í tilkynningu frá Veðurstofunni kemur fram að jarðskjálftahrinur við Kleifarvatn séu vel þekktar.

Frá því að mælingar hófust hafa nokkrar slíkar átt sér stað en stærsti skjálftinn sem hefur mælst þar var að stærð 5,9 þann 17. Júní árið 2000 klukkan 15:41. Sá var rétt eftir stóra Suðurlandsskjálftann.

Í tilkynningu Veðurstofunnar kemur fram að frá árinu 1991 hafa sjö jarðskjálftar yfir 4 að stærð orðið við Kleifarvatn en þrír þeirra mældust 24. febrúar 2021 í upphafi hrinunnar á Reykjanesi sem leiddi af sér eldgosið í Geldingadölum.

Frá áramótum hafa þrír skjálftar yfir 3 að stærð mælst við Kleifarvatn en tveir af þeim mældust í dag. Veðurstofunni hafa borist margar tilkynningar um að þeir hafi fundist í byggð. Þess má geta að í fyrra mældust þar 26 skjálftar yfir 3 að stærð.