Sigurður Pétur Sigmundsson, oddviti Bæjarlistans í Hafnarfirði hefur gengið í Samfylkinguna. Guðmundur Árni Stefánsson, oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, greinir frá því á Facebook síðu sinni. Oddvitar tveggja flokka hafa því gengið til liðs við Samfylkinguna frá kosningunum 14. maí.
Fréttablaðið greindi frá því í gær að Sigurður Þ. Ragnarsson, veðurfræðingur og fyrrverandi bæjarfulltrúi Miðflokksins og óháðra í Hafnarfirði, hafi ákveðið að ganga til liðs við Samfylkinguna.
„Þetta eru öflugir liðsmenn og drengir góðir og ég býð þá hjartanlega velkomna og þeirra fólk í baráttu fyrir betri bæ,“ segir Guðmundur Árni. Sigurður Pétur og Sigurður Ragnar ganga til verka og trúnaðarstarfa í íþrótta- og menningarmálum í Hafnarfirði fyrir hönd Samfylkingarinnar.
Bæjarlistinn fékk 4,3 prósent atkvæða í sveitastjórnarkosningunum og Miðflokkurinn fékk 2,8 prósent, samtals fengu þeir um þúsund atkvæði. Guðmundur Árni segir jafnaðarmenn í Hafnarfirði sannarlega mætta til leiks.