Þó svo að Lamborghini Urus jeppinn seljist eins og heitar lummur eru þeir hjá Lamborghini að íhuga smíði annars jeppa sem svipa mun til gamla LM002 jeppa Lamborghini. Sá bíll kom fram á sjónarsviðið fyrir 26 árum og talsvert mikil eftirspurn er eftir þeim klossaða bíl, enda var ekki mikið framleitt af honum á sínum tíma. Svo rammt hefur kveðið við að áhugasamir kaupendur hafa reynt að kaupa LM002 jeppa beint af Lamborghini, án árangurs þó. 

Ef að smíði nýs jeppa kæmi færi árssala Lamborghini líklega yfir 10.000 bíla en það stefnir í 8.000 bíla sölu í ár. Nú framleiðir Lamborghini aðeins þrjár bílgerðir, Aventador, Huracán og jeppann Urus. Á bílasýningunni í Genf um daginn frumsýndi Lamborghini Aventador SVJ Roadster með 770 hestafla vél, en Urus jeppinn er með 641 hestöfl undir húddinu.