Annar þeirra tveggja Ís­lendinga sem greindust með CO­VID-19 á Kanarí­eyjum hafði komið til eyjanna fjórum til fimm dögum áður en hann var lagður inn á spítala. Sá er með lungna­bólgu og liggur á gjör­gæslu­deild.

Þetta segir Einar Logi Einars­son, sem dvalið hefur lang­dvölum á Kanarí­eyjum, í sam­tali við Frétta­blaðið. Héraðs­frétta­miðillinn Trölli greindi fyrst frá því í dag að tveir Ís­lendingar lægju þungt haldnir á gjör­gæslu­deild á Kanarí­eyjum með CO­VID-19. Vísað var í færslu Einars Loga í Face­book-hópnum Heilsan á Kanarí.

Land­spítalanum og borgara­þjónustu utan­ríkis­ráðu­neytisins var í dag að­eins kunnugt um eitt til­felli en Einar segir í sam­tali við Frétta­blaðið að um sé að ræða tvo Ís­lendinga, karla sem komnir eru yfir sex­tugt. „Það eru tveir á spítala,“ segir hann og bætir við að annar mannanna hafi verið lagður inn eftir hjarta­á­fall en hinn vegna lungna­bólgu.

Uppfært 25. september: Í gærkvöldi var leitað til borgaraþjónustunnar vegna annars Íslendings sem hafði verið lagður inn á spítala á Kanaríeyjum.

„Sam­kvæmt þeim upp­lýsingum sem ég hef greindust þeir báðir með CO­VID-19 við inn­lögn á spítala,“ segir hann.

Einar Logi, sem var bú­settur á Kanarí­eyjum í tæp tíu ár þar sem hann starfaði meðal annars sem túlkur, kveðst hafa verið í sam­skiptum við að­stand­endur mannsins sem er með lungna­bólgu. „Hann er þungt haldinn en ég get ekkert full­yrt með hinn þó hjarta­á­fall sé alltaf al­var­legt. Ég hef ekki nánari upp­lýsingar um hann.“

Einar Logi segir mikil­vægt fyrir Ís­lendinga á þessum slóðum að fara var­lega, en hann segir að ekki hafi fleiri smit greinst meðal Ís­lendinga sem hafa um­gengist mennina á Kanarí­eyjum. Eigin­konur mannanna eru með í för og segir Einar að sýna­tökur hjá þeim hafi reynst nei­kvæðar.

Einar hvetur Ís­lendinga á svæðinu til að fara að öllu með gát. „Það er full á­stæða til að hvetja fólk til þess að fara var­lega og um­gangast alla eins og þeir séu smitaðir,“ segir hann.

Frétta­blaðið ræddi í dag við Önnu Sig­rúnu Baldurs­dóttur, að­stoðar­mann for­stjóra Land­spítalans, sem stað­festi að spítalanum hafi borist upp­lýsingar um inn­lögn eins sjúk­lings á gjör­gæslu á Kanarí­eyjum. Ekki væri úti­lokað að enn ætti eftir að berast til­kynning um hinn. Hún sagði engin á­form vera uppi um að flytja um­ræddan sjúk­ling til Ís­lands að svo stöddu.