Búið er að staðfesta áframhaldandi tveggja vikna gæsluvarðhald yfir báðum mönnunum í hryðjuverkamálinu svokallaða. Þetta staðfestir lögmaður annars mannsins, Sveinn Andri Sveinsson í samtali við Fréttablaðið. Áður hafði héraðssaksóknari, Ólafur Þór Hauksson, staðfest varðhaldið yfir öðrum manninum.

Mennirnir tveir eru grunaðir eru um skipu­lagningu hryðju­verka og hafa nú setið í varð­haldi í sam­tals níu vikur. Verði þeir tvær vikur í viðbót verða þeir komnir viku frá hámarkinu, sem er tólf vikur.

Sveinn Andri útskýrir að þeir væru í varðhaldi vegna gruns um skipulagningu hryðjuverka og að þeir þættu hættulegir samfélaginu, ekki væri hægt að halda mönnunum svona lengi í varðhaldi ef einungis væri rökstuddur grunur um vopnalagabrot.

„Þeir hafa bara keypt það.“ segir Sveinn og vísar þar með til þess að dómari hafi fallist á málfluting ákæruvaldsins.

Hann segir að hann ætli að kæra úrskurðinn til Landsréttar.

Einar Oddur Sigurðsson, lögmaður hins mannsins segir Héraðssaksóknara telja þann tíma nægja til að klára málið, það er að segja ganga frá rannsókninni og ákveða með útgáfu ákæru.

Spurður um hvort hann sé sáttur með úrskurðinn svarar hann neitandi. „Nei, skjólstæðingur minn er eðlilega ekki sáttur við að hafa þurft að sæta varðhaldi í núna níu vikur og málið ekki komið lengra en raun ber vitni,“ segir hann og bendir á að fyrir síðasta gæsluvarðhaldsúrskurð hafi saksóknari sagt að rannsókn ætti að vera lokið fyrir næsta varðhaldsúrskurð. „En það stóðst ekki,“ segir Einar.

Fréttin hefur veri uppfærð.