Einn þeirra níu sem var saknað eftir jarð­fallið í Ask í Gjer­drum í Noregi fannst látinn rétt í þessu. Leitar­hundar fundu staðsetningu þess látna en átta er enn saknað. Norska lög­reglan vonast enn til að ein­hverjir þeirra séu á lífi.

Roy Al­kvist, sem stjórnar leitinni, segist ekki geta greint frá kyni þess látna enn sem komið er í sam­tali við norska fjöl­miðla.

„Við vinnum hörðum höndum við leitina á öllum svæðum þar sem við teljum þau geta verið og munum færa enn meiri kraft í leitina á næstunni,“ segir Al­kvist. „Björgunar­starf er í fullum gangi. Eins og er eru þrjú leitar­teymi sem leita á skriðu­svæðinu auk þess sem við erum með leitar­hunda. Við leitum á svæðum þar sem við teljum lík­legt að við finnum fólk og hluti.“

Einn fannst látinn á skriðu­svæðinu í gær en enn hefur ekki verið greint frá nafni hans. Lög­regla gaf þó út lista yfir þá sem er saknað en þar á meðal eru tvö börn, annað tveggja ára en hitt þrettán ára.

Leitar­svæðið var stækkað í dag því fyrr var ekki talið öruggt að fara inn á á­kveðið svæði þar sem enn var talin hætta á jarð­falli og skriðum. Sá sem fannst látinn í dag var innan við hundrað metrum frá jaðri skriðu­svæðisins.