Enn er mikill súr­efnis­vandi á sjúkra­húsum í Ind­landi og deyja fjöl­margir CO­VID-19 sjúk­lingar dag­lega ein­fald­lega vegna þess súrefnisbirgðir á sjúkruhúsum hafa klárast. Met­fjöldi lést á Ind­landi þriðja daginn í röð í dag vegna covid-19.

Tuttugu manns létust af völdum CO­VID-19 í gærnótt Jaipur Golden sjúkra­húsinu en sam­kvæmt yfir­lýsingu frá sjúkra­húsinu hefði verið hægt að koma í veg fyrir and­látin ef sjúk­lingarnir hefðu að­gang að súr­efni.

Um milljón manns hafa greinst með veiruna í Ind­landi á síðustu þremur dögum þar af 346 þúsund á síðasta sólar­hring. Þá létust 2,263 ein­staklingar í dag.Al­þjóða­heil­brigðis­stofnunin (WHO) sagði í dag að staðan á Ind­landi væri hræði­leg á­minning um hvað kórónu­veiran getur valdið miklum skaða.

Sjúkra­hús í Nýju Delí eru sögð vera að hruni komin og þá eru nær öll gjör­gæslu­rúm í notkun.

„Næstum allir spítalar eru komnir að þolmörkum. Ef súr­efnið klárast þá er ekki mikið hægt að gera fyrir marga sjúk­linga,“ segir Dr. Sumit Ray í sam­tali viðBBC. „Þau munu deyja innan ör­fárra mínútna. Þú getur séð þessa sjúk­linga: Þeir eru í öndunar­vél og þurfa súr­efni. Ef súr­efnið klárast deyja þau flest.“

Yfirvöld stóðu ekki við loforð um meira súrefni

Annar læknir á Jaipur Golden sjúkra­húsinu í Nýja Delí segir í sam­tali við BBC að yfir­völd í Ind­landi lofuðu 3.6 tonnum að súr­efni fyrir kl: 17 á föstu­daginn.

Einungis brota brot af því magni barst spítalanum á mið­nætti í gær. Arvind Kejriwal, borgar­stjóri Nýju Delí, kom fram í fjöl­miðlum í gær og óskaði eftir meira súr­efni fyrir spítalana í borginni.

„Ríkið á að taka yfir allar súr­efnis­verk­smiðjur í landinu með her­valdi,“ sagði Kejriwal. Hann sagðist hafa verið vakinn í gær með sím­tali frá grunn­skóla­kennari sem hringdi og grát­bað um súr­efni fyrir eigin­mann sinn sem væri að berjast fyrir lífi sínu á gjör­gæslunni.

„Ég segi við sjálfan mig: Annar dagur í þessari borg þar sem andar­dráttur er munaðar­vara. Við erum að hringja um allt og senda út neyðar­köll,“ sagði Kejriwal.

Kona með COVID-19 á spítala í Nýju Delí.
Ljósmynd/AFP

Fregnir hafa borist af því að ríkis­yfir­­völd hafi hindrað flutning súr­efnis­birgða yfir til annarra ríkja. Þá hafa sumar heil­brigðis­­stofnanir verið á­sakaðar um að hafa hamstrað birgðir.

Ind­verski stjórn­­mála­­maðurinn Saurabh Bhara­dwa­j sem liggur á sjúkra­húsi í Nýju Delí vegna CO­VID sýkingar birti mynd­band á Twitter á fimmtu­daginn þar sem hann biðlar um hjálp og segir að­eins þriggja klukku­­tíma súr­efnis­birgðir vera eftir á sjúkra­húsinu þar sem hann dvelur.

„Mikið af fólki er al­­gjör­­lega háð súr­efni og án súr­efnis mun þetta fólk deyja eins og fiskar á þurru landi. Núna er tími til kominn fyrir fólk til að standa saman,“ sagði Bhara­dwa­j.

Heil­brigðis­­kerfið að hruni komið

Nýja Delí er þekkt fyrir státa einu besta heil­brigðis­­kerfi Ind­lands sem er nú að hruni komið vegna bylgju nýrra CO­VID smita. Fjöl­­skyldur hafa þurft að bíða klukku­­tímum saman með jarðar­­farir ættingja sinna og að minnsta kosti eitt lík­brennslu­hús í Nýju Delí hefur þurft að bregða á það ráð að brenna fólk á bíla­­stæði sínu til að anna eftir­­­spurn. Lík­brennslu­hús í öðrum borgum hafa neyðst til að halda fjölda­brennur og starfs­­menn þurfa að vinna dag sem nótt á vöktum.

„Í fyrstu bylgju far­aldursins var meðal­­talið um átta til tíu lík á dag, einu sinni fóru þau upp í á­tján. En í dag er á­standið orðið mjög slæmt. Í gærnótt brenndum við 78 lík,“ segir Jitender Sing­h Shun­ty sem rekur lík­brennslu­hús í norð­austur­hluta Nýju Delí.