Annað hús fór í aurskriðu sem féll niður farveg Búðarár á Seyðisfirði rétt fyrir klukkan þrjú í dag. Upplýsingafulltrúi almannavarna gat ekki staðfest hvort að fleiri hús hafi farið. Húsið sem um ræðir stóð utan rýmingarsvæðis.

Að sögn íbúa á svæðinu mátti heyra gríðarlegar drunur í firðinum laust fyrir klukkan 15:00 og ljóst að eitthvað mikið var í gangi. Í gegnum rigninguna og mökkinn mátti sjá hús sem stóð fyrir innan ána og hafði færst af stoðum sínum og var komið hálfa leiðina út í sjó.

Fólk var að hlaupa út á götu á nærfötunum enda voru drunurnar rosalegar, mér leið eins og fjallið væri að hrynja yfir bæinn," segir íbúi á svæðinu í samtali við Fréttablaðið.

Sjónarvottur sem Austurfrétt náði tali af lýsti því að húsið hefði kubbast eins og pappakassi.

Rafmagn er farið af hluta bæjarins. Farið er að dimma en nokkur mökkur var eftir skriðuna og íbúar á svæðinu eru í miklu áfalli.

Ákveðið hefur verið að rýma fleiri hús frá Hafnargötu og út fjörðinn.