Fyrirhuguð framleiðslustöðvun kísilmálmframleiðandans PCC á Bakka gæti kostað Landsvirkjun yfir 300 milljónir króna á ársgrundvelli, ef miðað er við raforkuverð upp á 25 dollara á megavattstund og 80 prósenta lágmarkskaupskyldu PCC. Tilkynnt var í vikunni að PCC myndi hætta starfsemi tímabundið í lok júlímánaðar, aðeins fjórum mánuðum eftir að tilkynnt var um endurfjármögnun fyrirtækisins. Engar ákvarðanir hafa verið teknar innan Landsvirkjunar vegna stöðvunar PCC, segir talsmaður Landsvirkjunar.

Orkuþörf PCC á Bakka á fullum afköstum er um 456 þúsund megavattstundir á ári. PCC er skuldbundið til að standa skil á greiðslum til Landsvirkjunar þrátt fyrir að starfsemin stöðvist, en í orkusölusamningum sem þessum (e. take or pay) er algengt að kaupskylda hvíli á kaupandanum, um að minnsta kosti 80 prósent af umsaminni orku, óháð því hvort rafmagnið er notað eða ekki. Rúnar Sigurpálsson, framkvæmdastjóri PCC á Íslandi, vildi ekki upplýsa hver lágmarkskaupskylda PCC gagnvart Landsvirkjun væri.

„Það hefur engin ákvörðun verið tekin innan Landsvirkjunar vegna boðaðrar, tímabundinnar stöðvunar PCC Bakka. Sú stöðvun á að koma til framkvæmda síðar í sumar og þá munu mál eflaust hafa skýrst,“ segir Ragnhildur Sverrisdóttir, talsmaður Landsvirkjunar. „PCC Bakki er mikilvægur viðskiptavinur Landsvirkjunar og mikilvægur atvinnuveitandi og við vonum sannarlega að markaðsaðstæður breytist til hins betra sem fyrst,“ bætir Ragnhildur við.

Hugsanlegt tekjutap af minni raforkukaupum Bakka, miðað við ofangreindar forsendur, er ekki stórt í samhengi rekstrar Landsvirkjunar, en tekjur fyrirtækisins á síðasta ári námu yfir 70 milljörðum króna. Þó að smátt sé, eru tíðindin þó enn eitt höggið á rekstur fyrirtækisins. Landsvirkjun lækkaði nýlega verð til stórnotenda um allt að 25 prósent vegna erfiðrar stöðu á mörkuðum um heim allan. Áætlað er að þær verðlækkanir muni kosta einn og hálfan milljarð á þessu ári.

Öllu stærra áhyggjuefni Landsvirkjunar er að raforkuverð í Evrópu hefur hrunið á undanförnum mánuðum. Nýr orkusölusamningur Landsvirkjunar og Norðuráls, sem rekur álverið á Grundartanga, tók gildi í nóvember síðastliðnum og er tengdur við Nord Pool-raforkuverðið í Evrópu. Meðalverð á Nord Pool stóð í 42 evrum að meðaltali í nóvember síðastliðnum, en í lok þessarar viku stóð sama verð í 1,59 evrum á megavattstund og því væntanlega glatt á hjalla á Grundartanga um þessar mundir.

Um er að ræða meira en 96 prósenta lækkun og því einsýnt að Norðurál er væntanlega sá viðskiptavinur Landsvirkjunar sem borgar lægsta verðið um þessar mundir. Fram kom í ársskýrslu Landsvirkjunar fyrir síðasta ár, að áhættuvarnir gegn sveiflum á Nord Pool-raforkumarkaðnum séu ekki fyrir hendi. Norðurál kaupir alla jafna um 10 prósent af því rafmagni sem Landsvirkjun framleiðir.