Anna, Guð­rún og Kristín voru al­gengustu eigin­nöfn kvenna í byrjun árs 2023 en hjá körlum voru nöfnin Jón, Sigurður og Guð­mundur al­gengust. Sú breyting hefur orðið að eigin­nafnið Anna er nú al­gengara en eigin­nafnið Guð­rún og er það í fyrsta sinn sem það gerist.

Í frétt á vef Hagstofunnar kemur fram að flestir landsmenn beri fleiri en eitt nafn. Í ársbyrjun 2023 voru þrjár algengustu samsetningarnar hjá körlum Jón Þór, Gunnar Þór og Arnar Freyr. Þetta voru einnig algengustu tvínefnin fimm árum fyrr með þeirri undantekningu að Arnar Freyr kom upp í þriðja sætið á kostnað Jóns Inga. Hjá konum voru þrjár algengustu samsetningarnar Anna María, Anna Kristín og Anna Margrét. Þetta voru líka þrjú algengustu tvínefnin árið 2018.

Athygli vekur að nöfnin Jón og Anna komust hins vegar ekki á blað þegar horft er til vinsælustu nafna nýfæddra árið 2021. Aron var vinsælasta eiginnafn nýfæddra drengja á árinu 2021 en þar á eftir Jökull og Alexander.

Emilía var vinsælasta stúlkunafnið en þar á eftir Embla og Sara. Þór var langvinsælasta annað eiginnafnið hjá drengjum en þar á eftir Freyr og Máni. Rós var vinsælasta annað eiginnafnið hjá stúlkum. Á eftir þeim kom stúlkunafnið Björk og Ósk sem vinsælasta annað eiginnafn nýfæddra stúlkna.

Þá bendir Hagstofan á að afmælisdagar á Íslandi dreifast ekki jafnt yfir árið. Algengara sé að börn fæðist að sumri og á hausti en yfir vetrarmánuðina, frá október og fram í mars. Alls eru 51,5% allra afmælisdaga á tímabilinu frá apríl til september. Í upphafi árs 2023 gátu flestir átt von á því að halda upp á afmælisdaginn 1. janúar, alls 1.246 einstaklingar. Fæstir áttu afmæli á hlaupársdag, 29. febrúar, eða 234 einstaklingar. Næst kemur jóladagur (780) og aðfangadagur (861).