Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, segir í svari við kveðjum og stuðningsyfirlýsingum á Facebook-síðu sinni að hún standi stolt með Sigmundi sínum „enda veit ég hvaða mann hann hefur að geyma og veit hver líðan hans er núna.“

Þarna bregst Anna Sigurlaug við kveðju frá Facebook-vinkonu sem segist skammast sín „fyrir þessa samlanda mína sem gera allt til þess að koma höggi á Sigmund.“ Hún bætir við að Sigmundur sé „besti stjórnmálamaður sem við höfum átt í seinni tíð“ og að andstreymið sem hann stendur í núna eigi sér rætur í öfund og engu öðru.

Kveðjan fær góðar undirtektir og Anna Sigurlaug þakkar fyrir sig: „Hjartans þakkir til ykkar allra. Stuðningur ykkar er ómetanlegur. Við erum nú búin að taka nokkra slagina síðustu árin en nú er ég kjaftstopp,“ skrifar hún og segist ekki skilja „hvert íslenskt samfélag er komið.“ Hún sé „kjaftstopp“ yfir hatrinu og þörfinni fyrir að smána aðra“ til þess að „upphefja sjálfan sig.“

Þá staðfestir Anna Sigurlaug þau orð eiginmanns síns að svo mikið hafi gengið á í veislum stjórnmálafólks á undanförnum árum að þeim hjónum hafi stundum ofboðið og þau kosið að yfirgefa slík samkvæmi.

„Ég ætla ekki að segja ykkur hvað hefur gengið á í partíum meðal stjórnmálamanna síðustu árin en það kannski segir allt að við SDG höfum gengið út.“