„Móðir mín hafði engin ráð á tann­réttingum, hún var ein­stæð verka­kona með fjögur börn. Það endaði með að ég beit úr mér tennurnar á full­orðins­árum vegna bit­skekkju.“

Þetta segir Anna María Sverris­dóttir, sér­kennari í grunn­skóla í Reykja­vík, vegna frétta­skýringar Frétta­blaðsins um fok­dýrar tann­réttingar barna hér á landi. Fram kom að kostnaður getur hlaupið á milljónum við hvert barn.

Árið 1992 lauk tíma­bili þegar tann­réttingar barna höfðu verið svo til fríar um skeið. Síðan hefur kostnaður með­ferðar vaxið á sama tíma og styrkur frá sjúkra­tryggingum hefur staðið í stað um ára­tuga skeið og því ekki fylgt vísi­tölu­hækkun.

Meðferð fyrir efnað fólk

„Ég hafði mjög fram­stæðar tennur í efri gómi og hefði þurft með­ferð. En hún var ekki í boði nema fyrir efnað fólk,“ segir Anna María.

Hún tekur fram að með því að ræða þessa reynslu á­lasi hún alls ekki móður sinni. Kostnaðurinn hafi ein­fald­lega verið of mikil hindrun.

Spurð hvort erfitt hafi verið að horfa á önnur börn fá bót sinna meina á sama tíma og Anna María sat eftir, svarar hún: „Mér fannst erfiðast að horfa á sjálfa mig.“

Tennurnar teknar

Hún reyndi svo á fer­tugs­aldri að láta rétta tennurnar.

„Ég borgaði helling en þá var það of seint.“

Tennurnar í efri gómi hafi losnað, því þegar bitið sé í góm ýtist tennurnar út og losni.

„Það endaði með því að allar tennurnar í efri gómi voru teknar.“

Anna María segir mjög mikil­vægt að öll börn sem þurfi tann­réttingar njóti gjald­frjálsrar þjónustu.

„Auð­vitað hafði þetta mikil á­hrif á líf mitt. Og það var hræði­legt að láta rífa úr sér tennurnar.“

Skila­boð Önnu María til stjórn­valda eru að mæta börnum í sam­bæri­legum að­stæðum. Ríkið verði að niður­greiða kostnað, ekki að­eins í al­var­legustu til­vikunum eins og nú háttar til.

„Það skiptir öllu máli bæði sál­rænt og líkam­lega að þessi mál séu í lagi. Við búum í vest­rænu sam­fé­lagi og erum í hópi ríkustu landa. Gjald­frjálsar tann­réttingar barna ættu að flokkast undir mann­réttindi.“