„Ég hugsaði þetta fyrst sem verkefni fyrir krakkana í Nóaborg. Svo var ég hvött til þess að deila þessu á facebook sem ég gerði. Það þurfa ekki allir að finna upp hjólið og kannski nýtist þetta einhverjum,“ segir Anna Margrét Ólafsdóttir, leikskólastjóri á leikskólanum Nóaborg.

Anna Margrét hefur síðustu átta árin haldið úti vefnum paxel123.com en þar er að finna ókeypis námsleiki og verkefni fyrir börn frá fjögurra ára aldri og upp í yngsta stig grunnskóla. Þar sem mörg börn eru nú í sóttkví og dottin úr sinni daglegu rútínu ákvað Anna Margrét að útbúa sérstök verkefni sem þau geta unnið heima hjá sér.

„Þetta er bara áhugamál hjá mér en þetta er mjög skemmtilegt. Ég er nokkuð hugmyndarík og svo skoða ég alls konar efni á netinu og fæ hugmyndir. Svo fæ ég líka hugmyndir frá fólki sem skoðar síðuna mína.“

Á síðunni er að finna efni á níu tungumálum en talmeinafræðingar nota verkefnin hennar Önnu Margrétar mikið. Á síðustu dögum hefur orðið sprenging í umferð á síðuna en síðdegis í gær voru flettingar orðnar á þriðja þúsund.

Leikskólinn hefur verið lokaður frá miðri síðustu viku eftir að COVID-19 smit kom upp hjá starfsmanni. Sjálf hefur Anna Margrét verið í sóttkví í rúmar tvær vikur að læknisráði.

„Núna sit ég og er byrjuð að vinna verkefni fyrir krakkana í næstu viku. Ég hef ekki einu sinni horft á heila mynd á Netflix eða borðað snakk síðan ég fór í sóttkví,“ segir hún hlæjandi.

Anna Margrét býður þeim börnum í Nóaborg sem ekki hafa aðgang að prentara að koma til hennar og fá verkefnin afhent. Hún passar þó upp á að virða fjarlægðarmörk og afhendir þau af svölunum.

„Það er ótrúlega gaman að hafa fengið fullt af krökkum og foreldrum hingað í svalaheimsókn. Ég afhendi þeim poka af svölunum eins og einhver drottning. Krökkunum finnst þetta ansi spennandi.“

Öll barnabörn Önnu Margrétar, sem búa á þremur heimilum, eru í sóttkví eins og amman.

„Við reynum að gera alls konar og erum með stundaskrá fyrir þau. Svo fengu tvö þeirra að sofa í tjaldi inni í stofu um daginn. Við getum þó þakkað fyrir að þetta komi upp á tímum tækninnar. Barnabörnin eru öll mjög dugleg að nýta tæknina, bæði til að læra og hitta vinina.“

Sonur Önnu Margrétar sem er fótboltaþjálfari og getur því ekki unnið þessa dagana er með mömmu sinni í sóttkvínni.

„Við reynum að gera okkur dagamun og látum senda okkur mat af veitingastað einu sinni tvisvar í viku. Svo fengum við heimsendan ís í gær. Annars er prjóna ég eða hlusta á Storytel þegar ég er ekki að vinna.“